Róa öllum árum að því að spila á Kópavogsvelli

Blikar vonast eftir því að geta spilað heimaleiki sína á …
Blikar vonast eftir því að geta spilað heimaleiki sína á Kópavogsvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enn er stefnt að því að kvennalið Breiðabliks í knattspyrnu spili heimaleiki sína á heimavelli sínum, Kópavogsvelli, í stað Laugardalsvallar í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

Frakklandsmeistarar París Saint-Germain eru væntanlegir hingað til lands í næstu viku þegar liðin mætast í fyrsta leik B-riðils Meistaradeildarinnar.

Lýsing frá flóðljósum á Kópavogsvelli er ekki nægilega mikil og því er völlurinn ekki gjaldgengur fyrir riðlakeppnina samkvæmt reglum Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA. Breiðablik vinnur um þessar mundir náið með bæjaryfirvöldum í Kópavogi og fengu erlendan óháðan aðila til þess að mæla ljósstyrkinn, sem reyndist ekki nægur.

„Við erum ennþá að reyna að verða við ákveðnum kröfum og miðum alla okkar vinnu við að spila á Kópavogsvelli. Þeim fannst þetta ansi dauft en við erum að vinna í að reyna að efla ljósin.

Það hefur komið tillaga frá framleiðanda ljósanna með hvernig það er hægt að auka styrkinn til að ná ákveðnum viðmiðum sem UEFA getur sætt sig við,“ sagði Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks.
Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks. Ljósmynd/Breiðablik

„Þetta skýrist vonandi allt á næstu 2-3 dögum enda stutt í leikinn, verið er að funda með Kópavogsbæ og framleiðandandum í þessum töluðu orðum og erum við bara í kapphlaupi við tímann,“ bætti hann við.

Takist ekki að auka ljósstyrkinn á Kópavogsvelli þarf Breiðablik að spila heimaleiki sína í október, nóvember og desember í riðlakeppninni á Laugardalsvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert