Stjórnarliðar KSÍ vísa ásökunum á bug

Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen sátu fyrir svörum …
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen sátu fyrir svörum á blaðamannafundi KSÍ í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnarmenn Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, segjast ekki hafa komið að valinu á landsliðshóp karlalandsliðsins fyrir leikina gegn Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM.

Þetta staðfestu þeir í samtali við mbl.is í dag.

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska liðsins undanfarinn áratug, var ekki í hópnum sem Arnar Þór Viðarsson, þjálfari liðsins, tilkynnti á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardalnum í dag.

Rétt fyrir fund bárust fréttir af því að verðandi stjórn hefði meinað landsliðsþjálfaranum að velja Aron Einar. Arnar Þór landsliðsþjálfari neitaði staðfastlega fyrir þetta á fundinum og sagði að ákvörðunin hefði verið hans.

„Ég get aðeins dregið þá álykt­un að kom­andi sjálf­kjör­in stjórn KSÍ hafi umboðslaus beitt sér fyr­ir því að mér yrði slaufað eins og fram hef­ur komið í frétt­um á DV.is,“ segir meðal annars í fréttatilkynningu sem Aron Einar sendi frá sér rétt í þessu.

Mbl.is hefur rætt við nokkra fráfarandi og verðandi stjórnarmenn KSÍ í dag og hafa þeir allir neitað því staðfastlega að hafa haft eitthvað með þá ákvörðun að gera að Aron Einar var ekki valinn í landsliðshópinn.

Ný bráðabirgðastjórn tekur við á laugardaginn kemur á aukaþingi KSÍ sem fram fer á Hilton Reykjavík Nordica-hótelinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert