Vestri betra lið en staðan í deildinni sýnir

Arnar Gunnlaugsson fagnaði Íslandsmeistaratitlinum um síðustu helgi og vonast nú …
Arnar Gunnlaugsson fagnaði Íslandsmeistaratitlinum um síðustu helgi og vonast nú eftir því að bæta bikarnum við. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Gunnlaugsson þjálfari Íslandsmeistara Víkings segir að mótherjar þeirra í undanúrslitum bikarkeppninnar í knattspyrnu í dag séu sýnd veiði en ekki gefin.

Vestri og Víkingur mætast í undanúrslitunum á Meistaravöllum KR-inga klukkan 14.30 í dag en sigurliðið þar mætir ÍA eða Keflavík úrslitaleik keppninnar á Laugardalsvellinum 16. október.

„Vestramenn eru með mjög gott lið. Ég held að þeir hafi ekki náð eins góðum árangri í sumar og þeir hefðu getað og menn fyrir vestan séu ekki ánægðir með gengi þeirra í 1. deildinni, miðað við þá leikmenn sem þeir hafa," sagði Arnar þegar mbl.is ræddi við hann um undanúrslitaleikinn.

Geta aftur unnið ríkjandi meistara

„Þeir eru í öllum stöðum með leikmenn sem kunna fótbolta, það er ég alveg með á hreinu eftir að hafa séð nokkra leiki með þeim, þannig að við þurfum að vera gríðarlega vel á varðbergi. Það má ekki leyfa sér nokkurt vanmat, en það var einmitt okkar akkílesarhæll framan af sumri. Sem betur fer náðum við að hrista það af okkur þegar leið á sumarið.

Ég á von á hrikalega erfiðum leik gegn Vestramönnum og þeirra leið í undanúrslitin hefur verið sveipuð mikilli rómantík.  Þeir unnu Val í átta liða úrslitunum, slógu þar með út ríkjandi Íslandsmeistara á þeim tímapunkti, og þeir geta því leikið sama leik og unnið núverandi ríkjandi Íslandsmeistara. Það er því margt fyrir þá til að keppa að, auk þess að ná að komast í sinn fyrsta bikarúrslitaleik í sögunni, og eiga möguleika á Evrópusæti. Bikarinn býður alltaf upp á svakalega rómantík," sagði Arnar.

Gulrótin er að vinna tvöfalt

Hann fagnaði Íslandsmeistaratitlinum með sínum mönnum um síðustu helgi og sagðist viss um að þeir væru aftur komnir á rétta braut.

„Já, mér finnst að eftir titilfögnuðinn um síðustu helgi séu menn komnir aftur í rétta gírinn og það hafa verið svakalega flottar æfingar hjá okkur í gær og fyrradag. Síðan er það gulrótin að vinna tvöfalt, það hafa bara fjögur félög afrekað það frá upphafi og eitt á þessari öld. Sjálfur fór ég illa að ráði mínu sem leikmaður, því ég vann aldrei tvöfalt og sé enn eftir því í dag. Það er því að miklu að keppa og ekki síst því að vera ekki farnir í frí alveg strax. 

Það eru góðir straumar í gangi í kringum félagið þessa dagana og það er gaman að reyna að halda því áfram," sagði Arnar.

Hlakkaði til að spila fyrir vestan

Ekki var hægt að spila á Ísafirði vegna slæmra vallarskilyrða en grasvöllurinn þar er illa farinn af bleytu eftir veðrið sem gekk yfir Vestfirðina fyrr í vikunni. Arnar sagðist helst hafa viljað spila leikinn fyrir vestan ef mögulegt hefði verið.

„Ég var farinn að hlakka rosalega mikið til að fara vestur og spila leikinn þar. Fara í annað umhverfi og fá öðruvísi andstæðinga. Ég man bara þegar við unnum bikarinn 2019 og fórum með gúmmíbát til Eyja þar sem við vorum allir sjóveikir rétt fyrir leikinn.

Til að vinna svona titil þarftu að glíma við allskonar verkefni en ég verð að viðurkenna að eftir að hafa séð myndir af vellinum fyrir vestan þá er ég feginn að leikurinn skuli fara fram í Vesturbænum. Mér leist ekkert á þær aðstæður og ég held að það hefði ekki hjálpað Vestramönnum neitt heldur að fara að spila einhvern mýrarbolta. Við eigum góðar minningar úr Vesturbænum og vonandi höldum við því áfram," sagði Arnar Gunnlaugsson.

Leikur Vestra og Víkings hefst kl. 14.30 á Meistaravöllum og verður í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert