Skrímsli sem hefði verið leyst úr læðingi

„Þetta sló okkur aðeins út af laginu því við vorum einfaldlega að bjóða okkar keppinaut upp í dans,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslandsmeistara Víkings úr Reykjavík í knattspyrnu, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Breiðablik vann 4:0-sigur gegn Víkingum 2. ágúst þegar liðin mættust á Kópavogsvelli í 15. umferð úrvalsdeildarinnar en með sigrinum jöfnuðu Blikar Víkinga að stigum í 2.-3. sætinu.

Víkingar stóðu hins vegar uppi sem Íslandsmeistarar eftir ótrúlega dramatík í 21. umferðinni þar sem Víkingur vann lygilegan sigur gegn KR í Vesturbæ á meðan Blikar töpuðu gegn FH í Kaplakrika.

„Breiðablik er frábær klúbbur með gríðarlega mikla leikmannadýpt ef svo má segja og félagið er mjög vel statt fjárhagslega núna eftir árangurinn í Evrópukeppninni,“ sagði Arnar.

„Ég hugsa að fólk geri sér ekki alveg grein fyrir því hvað hefði gerst ef Breiðablik hefði orðið Íslandsmeistari því það hefði í raun verið eins og að opna pandora-box þar sem eitthvað skrímsli hefði verið leyst úr læðingi,“ sagði Arnar meðal annars.

Viðtalið við Arnar í heild sinni má nálgast með því að smella hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert