Ber virðingu fyrir Breiðabliki

Amanda Ilestedt (til vinstri) á æfingu á Kópavogsvelli nú seinni …
Amanda Ilestedt (til vinstri) á æfingu á Kópavogsvelli nú seinni partinn. mbl.is/Unnur Karen Björnsdóttir

Didier Ollé-Nicolle þjálfari París Saint-Germain segist bera virðingu fyrir liði Breiðabliks og árangri þess en Breiðablik og París mætast á Kópavogsvelli annað kvöld í Riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu kvenna í knattspyrnu. 

Þjálfarinn franski benti á að Breiðablik hafi komist með sannfærandi hætti í riðlakeppnina og með markatöluna 19:2. Liðið hafi auk þess unnið bikara á Íslandi á umliðnum árum. Hann segist bera virðingu fyrir Breiðabliki og á ekki von á öðru en að leikurinn verði erfiður. 

Ollé-Nicolle tók við Parísarliðinu í sumar og tók því við liðið sem er franskur meistari. Hann sagðist ekki hafa horft á leikina tvo sem París spilaði gegn Breiðabliki fyrir tveimur árum. Bæði lið hefðu tekið það miklum breytingum. Hann sagðist hins vegar hafa séð nokkra leiki með Blikum. Bæði frá deildarleikjum og bikarúrslitaleiknum en einnig gegn króatíska liðinu Osijek. Á heildina litið segist hann leggja mesta áherslu á að velta sínu eigin liði fyrir sér. Að baki sé þriggja mánaða vinna til að búa til grunn fyrir keppnistímabilið og það skipti mestu máli. 

Ollé-Nicolle var ekki með miklar yfirlýsingar um hversu langt frönsku meistararnir vilji komast í keppninni. Sagði einfaldlega að væntingar séu um að liðið komist sem lengst. Sex til sjö lið séu hins vegar mjög sterkt og því sé erfitt að spá í spilin. Hann lét þess einnig getið að í  deildakeppninni standi málin ekki þannig að leikirnir gegn Lyon séu einu erfiðu leikirnir. Mörg lið séu að bæta sig og nefndi sérstaklega Montpellir. 

Þjálfarinn Didier Ollé-Nicolle á æfingu á Kópavogsvelli í dag.
Þjálfarinn Didier Ollé-Nicolle á æfingu á Kópavogsvelli í dag. mbl.is/Unnur Karen Björnsdóttir

Sænska landsliðskonan Amanda Ilestedt tók í svipaðan streng og sagði að lið eins og París Saint Germain vilji ná árangri í Meistaradeildinni.

Sjálf er hún nýr leikmaður hjá liðinu eftir að hafa verið fjögur ár í Þýskalandi. Hún sagði ganga ágætlega að hrista hópinn saman þótt breytingar á leikmannahópnum hafi verið nokkrar.

Ferill Ilestedt með franska liðinu er rétt að hefjast því hún hefur aðeins leikið tvo deildarleiki með liðinu. Hún sagðist vera full tilhlökkunar að Meistaradeildin sé að hefjast á ný en hún var í liði Bayern München á síðasta tímabili sem komst í undanúrsilt keppninnar. 

Ilestedt hefur áður mætt Breiðabliki því hún var í liði Rosengård sem lék gegn Breiðabliki árið 2016. Lið Breiðabliks hefur hins vegar gerbreyst frá þeim tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert