„Gátum boðið upp á fínan leik gegn einu besta liði heims“

Heiðdís Lillýardóttir glímir við Paulinu Dudek á Kópavogsvellinum í kvöld.
Heiðdís Lillýardóttir glímir við Paulinu Dudek á Kópavogsvellinum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Vilhjálmur Kári Haraldsson stýrði Breiðabliki í síðasta sinn þegar liðið tapaði 0:2 fyrir París Saint-Germain á Kópavogsvellinum í kvöld í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu kvenna í knattspyrnu. 

„Þetta var æðislegur síðasti leikur. Ég var mjög ánægður með frammistöðuna. Við gátum ekki eytt heilli viku í undirbúning vegna bikarúrslitaleiksins. Við reyndum að æfa varnarfærslurnar en byggðum aðallega á okkar leik. Það var virkilega gaman að enda þetta svona og ég er mjög stoltur af liðinu,“ sagði Vilhjálmur á blaðamannafundi á Kópavogsvellinum í kvöld. Eins og áður hafði verið tilkynnt er hann að láta af störfum og við starfinu tekur Ásmundur Arnarsson. 

Vilhjálmur sagðist aldrei hafa verið svartsýnn í aðdraganda leiksins þótt andstæðingurinn væri Frakklandsmeistararnir. 

„Ég hafði séð þetta fyrir mér sem 1:1 leik og það stefndi í það á tímabili. Ég hafði mikla trú á okkur í þessu verkefni. Einbeitingin hefur verið góð hjá stelpunum og baráttan hefur verið mikil í síðustu leikjum. Ég sé fyrir mér að það verði erfitt að koma hingað og spila á móti Breiðabliki í keppninni. Ég held að þetta hafi verið virkilega flott og skemmtileg kvöldstund fyrir 1.500 áhorfendur. Við gátum boðið upp á fínan leik á móti einu besta liði í heimi. Þetta var kröftugur leikur hjá okkur. Við áttum fína kafla og frammistaðan gefur góð fyrirheit fyrir framhaldið.

Ólafur Pétursson og Vilhjálmur Kári Haraldsson hafa unnið vel saman …
Ólafur Pétursson og Vilhjálmur Kári Haraldsson hafa unnið vel saman í þjálfarateyminu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur Kári var spurður út í þá ákvörðun að setja Karen Maríu Sigurgeirsdóttur í byrjunarliðið en hún er nýkomin til liðsins frá Þór/KA. 

Selma [Sól Magnúsdóttir] átti að byrja inn á en var meidd og gat ekki því ekki spilað. Þar af leiðandi var ákveðið að Karen myndi byrja inn á. Við sáum fyrir okkur að hún og Birta [Georgsdóttir] myndu báðar koma við sögu í þessari stöðu á vellinum í leiknum. Karen er betri í að verjast en Birta er sóknarsinnaðri. Mér fannst við leysa þetta ágætlega.“

mbl.is