Eigum aldrei að sætta okkur við tap

Davíð Snorri Jónasson þjálfari U21-árs landsliðsins á æfingu með liðið …
Davíð Snorri Jónasson þjálfari U21-árs landsliðsins á æfingu með liðið í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari íslenska U21-árs liðsins í knattspyrnu karla, var ánægður með frammistöðu liðsins í í 0:1 tapinu gegn Portúgal í hörkuleik í undankeppni EM á Víkingsvellinum í dag en sagði þó að liðið ætti aldrei að una því að tapa.

„Við sögðum það í aðdraganda leiksins og í undirbúningi hans að þetta yrði bara hörkuleikur. Við töluðum um það í hálfleik að þetta var alveg leikur fyrir okkur að vinna eins og hvern annan,“ sagði Davíð Snorri í samtali við mbl.is eftir leik.

„Ef við förum fyrst yfir úrslitin þá eigum við aldrei að sætta okkur við að tapa, sérstaklega í svona jöfnum leik. En aftur á móti er ég mjög stoltur af strákunum þegar kemur að því að það sem við ætluðum að gera, það sem við vorum búnir að vera að leggja upp með, gekk að mörgu leyti vel upp.

Hvernig við reyndum að pressa hátt, hvernig við leyfðum þeim að bera upp boltann og settum pressuna á réttum augnablikum, ég var mjög ánægður með það,“ bætti hann við.

Fengum fjölda færa í fyrri hálfleik

Í fyrri hálfleik fékk íslenska liðið fjölda frábærra tækifæra til þess að skora en inn vildi boltinn þó ekki.

„Við fengum klárlega okkar augnablik, fullt af færum til þess að skora, sérstaklega í fyrri hálfleik og svo undir lokin. Sóknarlega náðum við að fara í veiku svæðin þeirra og komast á bakvið þá. Þannig að það var margt mjög gott.

Við verðum því að skipta leiknum upp í tvennt. Við erum ósáttir við úrslitin að sjálfsögðu en frammistaðan, einbeitingin og það hugrekki sem við sýndum í dag var mjög gott. Þeir punktar sem við vildum vinna í í þessum glugga, við náðum að bæta okkur í þeim,“ sagði Davíð Snorri.

Að þremur leikjum loknum í D-riðli undankeppninnar er Ísland með 4 stig. Hann sagði liðið ekki spá mikið í stigasöfnuninni akkúrat núna en að möguleikar þess séu mjög góðir þar sem liðið sé stöðugt að verða betra.

„Þetta er bara nokkuð jafn riðill finnst mér. Þetta eru tíu leikir, við erum búnir með þrjá þannig að það er hellingur af stigum í boði og við erum bara rétt að byrja þetta mót.

Við erum að verða betri og betri í hverjum einasta glugga finnst mér og við höldum bara áfram. Þetta er ógeðslega gaman,“ sagði Davíð Snorri að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert