Framlengir við Íslandsmeistarana

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir í baráttunni með Val gegn Stjörnunni sumarið …
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir í baráttunni með Val gegn Stjörnunni sumarið 2020. mbl.is/Árni Sæberg

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir hefur framlengt samning sinn við kvennalið Vals í knattspyrnu út næsta tímabil.

Ásgerður Stefanía lék aðeins einn leik með Val á liðnu tímabili, í lokaumferðinni gegn Selfossi, þar sem hún eignaðist barn í sumar.

Hún er gífurlega reynslumikill leikmaður sem á að baki 252 leiki í efstu deild, þar sem hún hefur skorað 28 mörk. Flesta leikina hefur hún spilað fyrir Stjörnuna, eða 219 talsins. Þá á hún tíu A-landsleiki að baki.

„Adda gekk til liðs við Val árið 2019 og hefur verið mikilvægur hlekkur í hópnum síðan, bæði sem hluti af leikmannahópi og þjálfarateymi.

Það er frábært að liðið fái að njóta krafta og reynslu Öddu áfram næsta sumar,“ segir í tilkynningu frá knattspyrnudeild Vals.

Í síðustu viku var tilkynnt að Lára Kristín Pedersen, sem gekk til liðs við Val um mitt tímabil í sumar frá ítalska félaginu Napoli, hafi framlengt samning sinn við félagið til næstu tveggja ára.

mbl.is