Naumt tap gegn Portúgal

Bjarki Steinn Bjarkason sækir að Portúgölum í Fossvoginum í dag.
Bjarki Steinn Bjarkason sækir að Portúgölum í Fossvoginum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska U21-árs landsliðið í knattspyrnu karla þurfti að sætta sig við naumt tap, 0:1, gegn sterku liði Portúgals í D-riðli undankeppni Evrópumótsins á Víkingsvellinum í dag.

Fyrri hálfleikur var einstaklega líflegur og var það með miklum ólíkindum að hvorugt liðið væri búið að ná að skora að honum loknum enda fékk íslenska liðið fjögur frábær færi til þess að skora og portúgalska liðið annað eins.

Celton Biai í marki Portúgals varði fjórum sinnum frábærlega og Jökull Andrésson í marki Íslendinga gerði það tvisvar.

Íslensku leikmennirnir léku frábærlega og pressuðu nokkuð ráðvillta Portúgali hátt á vellinum og gáfu þeim engan tíma á boltann. Þá létu þeir boltann sjálfir ganga mjög hratt og ákveðið sem lagði grunninn að því að áðurnefnd færi fengust.

Portúgalir reiddu sig fremur á einstaklingsgæði í færasköpun sinni þar sem Joao Mario var stórhættulegur í hægri bakverðinum með góðum sprettum og hættulegum fyrirgjöfum. Sóknarmaðurinn Goncalo Ramos gerði sig þá nokkrum sinnum líklegan í vítateignum og olli talsverðum usla í hvert sinn sem hann fékk boltann eða var í námunda við hann.

Síðari hálfleikur byrjaði á því að Kristall Máni Ingason reyndi bakfallsspyrnu en skömmu eftir hana náðu Portúgalir betri stjórn á leiknum þar sem þeir héldu boltanum betur og áttu auðveldara með að skapa sér færi.

Fábio Silva klúðraði dauðafæri þegar Jökull varði vel frá honum af stuttu færi en um hálfri mínútu síðar, á 55. mínútu, tóku gestirnir forystuna.

Ramos átti þá flotta sendingu inn fyrir vörnina á Fábio Vieira sem tók laglega við boltanum og kláraði svo af öryggi undir Jökul.

Portúgalir voru áfram við stjórn en Sævar Atli komst þó nálægt því að jafna metin eftir rúmlega klukkutíma leik en Eduardo Quaresma í vörn Portúgals náði að bjarga á ögurstundu.

Í uppbótartíma skoraði Valgeir Lunddal Friðriksson með skalla en markið var dæmt af þar sem hann var metinn brotlegur á Celton í markinu áður en hann skoraði. Valgeir mótmælti dómnum kröftuglega, fannst hann aðeins hafa unnið boltann, og uppskar gult spjald fyrir.

Örskömmu síðar fór Jökull fram og vann skallabolta sem barst til Gísla Laxdals Unnarssonar varamanns, sem skaut í varnarmann og boltinn barst þaðan til Kristals Mána sem var í dauðafæri en Celton varði á einhvern ótrúlegan hátt af stuttu færi og Portúgalir hreinsuðu svo í horn.

Jökull var áfram frammi og Portúgalar hreinsuðu hornspyrnuna frá, komust tveir gegn einum varnarmanni Íslands og skoruðu í tómt markið en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

Skömmu síðar var leikurinn flautaður af og 1:0 sigur Portúgals því staðreynd.

Portúgal er á toppi D-riðilsins með fullt hús stiga, 9 stig í þremur leikjum.

Ísland er í fjórða sæti riðilsins með 4 stig, einnig eftir þrjá leiki.

Ísland U21 0:1 Portúgal U21 opna loka
90. mín. Paulo Bernardo (Portúgal U21) fær gult spjald
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert