Íslensk knattspyrnulið til tunglsins

Kvennalið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis ferðaðist mest allra knattspyrnuliða á Íslandi í sumar.
Kvennalið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis ferðaðist mest allra knattspyrnuliða á Íslandi í sumar. Ljósmynd/Facebook

Byggðastofnun hefur tekið saman áhugaverðan fróðleik um ferðalög íþróttaliða hér á landi. Í meistaraflokkum karla og kvenna í í knattspyrnu í sumar þurftu liðin að ferðast ríflega 413.000 kílómetra til þess að leika á útivöllum og koma sér aftur heim.

„Það samsvarar u.þ.b. leiðinni til tunglsins, reyndar bara aðra leiðina, og ríflega 300 ferðum hringinn í kringum landið. Þar af keyrðu 10 „ferðaglöðustu“ liðin rétt tæplega 100 þúsund km.,“ segir í stöðuuppfærslu Byggðastofnunar á Facebook.

Tíu „ferðaglöðustu“ liðin voru eftirfarandi:

1. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir – í 2. deild kvenna - 12.020 km.
2. Leiknir Fáskrúðsfirði – í 2. deild karla – 11.336 km.
3. Fjarðabyggð í 2. deild karla – 11.336 km.
4. Einherji á Vopnafirði í 2. deild kvenna – 10.852 km.
5. Einherji á Vopnafirði í 3. deild karla – 10.602 km.
6. Höttur/Huginn á Egilsstöðum og Seyðisfirði í 3. deild karla – 10.596 km.
7. Vestri á Ísafirði og Bolungarvík í 1. deild karla – 9.584 km.
8. Þór Akureyri í 1. deild karla – 9.210 km.
9. Sindri á Hornafirði í 3. deild karla – 9.160 km
10. Völsungur á Húsavík í 2. deild karla – 8.538 km.

Í stöðuuppfærslunni segir einnig að heildar ferðavegalengd liða í efstu deild karla hafi verið 21.696 kílómetrar. KA á Akureyri þurfti að ferðast 8.490 kílómetra, sem gerir 39 prósent af heildar vegalengdinni sem ferðast þurfti í þeirri deild.

Íslandsmeistarar Víkings í karlaflokki þurftu hins vegar aðeins að ferðast ríflega 1.000 kílómetra úr Fossvoginum og var stærstur hluti þeirrar vegalengdar ferðin norður til að spila við KA.

Þrjá deildir skera sig úr með mikil ferðalög. Það eru 2. deild karla, 3. deild karla og 2. deild kvenna, með á bilinu 73.000 – 87.000 kílómetra.

„Af þessu dæmi um Íslandsmót í meistaraflokki í knattspyrnu má sjá að íþróttafólk, þjálfarar og annað starfsfólk er að leggja mikið á sig til að stunda sína íþrótt. Ofan á æfingar koma ferðalög sem taka heilu dagana. Til viðbótar við þetta þurfa forsvarsmenn félaganna að standa straum af ferðakostnaðinum sem af þessu hlýst,“ segir auk þess í stöðuuppfærslu Byggðastofnunar.

Hana má lesa í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert