Tekur slaginn í næstefstu deild

Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK.
Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, verður áfram við stjórnvölinn hjá meistaraflokki karla í knattspyrnu á næsta tímabili.

HK leikur í 1. deild að ári eftir að hafa fallið úr úrvalsdeildinni, Pepsi Max-deildinni, í lokaumferð hennar í síðasta mánuði. Á sama tíma bjargaði ÍA sæti sínu á ævintýralegan hátt.

Viktor Bjarki Arnarsson, sem var aðstoðarþjálfari Brynjars Björns undanfarin tímabil, söðlaði um og tók við stöðu yfirþjálfara KR í síðasta mánuði.

Brynjar Björn hafði líka verið orðaður við fleira, meðal annars við lausa þjálfarastöðuna hjá Stjörnunni, en í samtali við Fótbolta.net í dag staðfesti Frosti Reyr Rúnarsson, formaður HK, að hann yrði áfram við stjórnvölinn.

Þar sagði hann einnig að félagið myndi gefa sér góðan tíma til þess að finna góðan eftirmann Viktors Bjarka í aðstoðarþjálfarastöðuna.

mbl.is