Þetta var erfitt kvöld

Karitas Tómasdóttir í baráttunni í Madríd í kvöld.
Karitas Tómasdóttir í baráttunni í Madríd í kvöld. Ljósmynd/Tom Delrat

Ásmundur Arnarsson, þjálfari kvennaliðs Breiðabliks í fótbolta, viðurkenndi að kvöldið hafi verið erfitt fyrir sitt lið er það tapaði fyrir stórliðinu Real Madrid, 0:5, í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á útivelli í kvöld.

„Þetta var erfitt kvöld. Leikmennirnir gerðu hvað þeir gátu en við vorum að spila á móti góðu liði. Það var erfitt að fá fyrsta markið á okkur svona snemma. Við reyndum að fara framar á völlinn en þá opnuðum við okkur,“ sagði Ásmundur á blaðamannafundi eftir leik.

Breiðablik tapaði fyrir öðru stórliði, París SG, í fyrsta leik. Þá urðu úrslitin 0:2 og frammistaðan mun betri.  

„Við fengum fleiri færi á okkur í kvöld. Andrúmsloftið á heimavelli var líka mjög gott á meðan þetta var erfitt á útivelli. Það var full auðvelt fyrir þær að skora. Núna þurfum að hvíla aðeins eftir þennan leik. Sumir leikmenn fara í landsliðsverkefni og svo höfum við tvær vikur til að gera okkur klár fyrir næsta leik,“ bætti Ásmundur við.

mbl.is