Þýðir ekki að bera of mikla virðingu fyrir þeim

Ásmundur Arnarsson er nýtekinn við sem þjálfari Breiðabliks.
Ásmundur Arnarsson er nýtekinn við sem þjálfari Breiðabliks. Ljósmynd/Breiðablik

Breiðablik mætir stórliði Real Madrid í B-riðli Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu á Alfredo Di Stéfano-vellinum í Madríd í kvöld.

Þetta er annar leikur Breiðabliks í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en Blikar töpuðu 0:2-fyrir París SG á Kópavogsvelli í fyrstu umferð riðlakeppninnar.

Blikar eru án stiga, líkt og Zhytlobud Kharkiv frá Úkraínu, í fjórða og neðsta sæti riðilsins en París SG og Real Madrid eru bæði með þrjú stig í efstu sætunum.

„Þessi leikur leggst mjög vel í okkur og við erum mjög spenntar að mæta þeim,“ sagði Ásmundur Arnarson, nýráðinn þjálfari Breiðabliks, á fjarfundi í Madríd með fjölmiðlamönnum í gær. „Við flugum út á mánudaginn og ferðalagið hingað út var langt en gott. Við millilentum í París og tókum svo leiguflug þaðan til Madrídar. Við vorum komin á leikstað rétt fyrir kvöldmat og markmiðið frá því að við komum út hefur verið að hvíla mannskapinn vel eftir langan ferðadag,“ sagði Ásmundur.

Mótherjinn kortlagður

Ásmundur tók við þjálfun Breiðabliks af Vilhjálmi Kára Haraldssyni 4. október og mun stýra sínum fyrsta leik gegn Real Madrid.

„Það er óneitanlega mjög sérstakt að koma inn í þetta á þessum tímapunkti og stýra liðinu í sínum fyrsta leik gegn Real Madrid. Það er ýmislegt sem þarf að huga að en ég hef líka fylgst vel með þessum stelpum undanfarið og þetta er fyrst og fremst frábær hópur.

Það er gríðarlega spennandi að fá tækifæri til að stýra liðinu í Meistaradeildinni og það hefur ekki gefist neinn tími í einhverjar breytingar þannig séð. Við munum byggja á því sem hefur verið gert vel og fara yfir þau smátriði sem þarf að fínpússa.“

Real Madrid hefur ekki farið vel af stað á tímabilinu en liðið er með fjögur stig í þrettánda og fjórða neðsta sæti spænsku 1. deildarinnar.

Liðið hefur einungis skorað þrjú mörk í fyrstu sex deildarleikjum sínum en Madrídingar hafa þó verið að rétta úr kútnum í undanförnum leikjum sínum og hafa nú unnið tvo leiki í röð í öllum keppnum.

„Við erum búin að fara mjög vel yfir þetta lið og það verður virkilega gaman að máta sig við þær. Tæknilega eru þær mjög góðar og mjög hreyfanlegar. Þær hafa verið að finna taktinn í síðustu leikjum sínum en það er alltaf möguleiki í fótbolta,“ bætti Ásmundur við.

Viðtalið við Ásmund má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. Þar er einnig rætt við Öglu Maríu Albertsdóttur, leikmann Breiðabliks.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »