„Útilokað að það geti gengið þannig til“

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Málefni íslenska karlalandsliðsins voru til umræðu á framhaldsþingi 75. Íþróttaþings ÍSÍ sem fram fór á Gullhömrum í Grafarholti um nýliðna helgi.

Líkt og mbl.is greindi frá í morgun eru meint ofbeldis- og kynferðisbrot sex leikmanna karlalandsliðsins nú til skoðunar hjá Sigurbjörgu Sigurpálsdóttur, samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Á íþróttaþingi ÍSÍ voru viðbrögð hreyfingarinnar við slíkum málum rædd og þá er verið að vinna að úrlausnum í þessum málaflokki.

„Við skipuðum starfshóp innan ÍSÍ sem hefur það að markmiði að vinna að því að setja inn heimildir sem íþróttahreyfingin getur stuðst við þegar viðkvæm mál koma upp, hvort sem það eru til dæmis kynferðis-, ofbeldis- eða eineltismál,“ sagði Andri Stefánsson, starfandi framkvæmdastjóri ÍSÍ, í samtali við mbl.is.

„Eitt af verkefnum Íþróttaþings ÍSÍ var að ræða þörfina á að setja reglur. Það eru allir sammála um það innan íþróttahreyfingarinnar að þetta sé mjög aðkallandi verkefni,“ sagði Andri.

Er viðeigandi að hver sem er úti í bæ geti sent inn formlega tilkynningu um meint brot til íþróttahreyfingarinnar og þá er meintur gerandi útilokaður frá til að mynda landsliðsverkefnum í sinni íþróttagrein?

„Það er útilokað að það geti gengið þannig til. Við þurfum hins vegar að hafa einhverjar reglur sem við getum fylgt eftir og við erum í raun að vinna þá vinnu núna.

Við megum ekki flýta okkur í því að setja einhverjar reglur. Við þurfum að vanda okkur en á sama tíma að láta þetta ganga eins hratt og hægt er.“

Andri Stefánsson, starfandi framkvæmdastjóri ÍSÍ.
Andri Stefánsson, starfandi framkvæmdastjóri ÍSÍ. Ljósmynd/ÍSÍ
mbl.is