„Heillar að vinna tvöfalt“

Sölvi Geir Ottesen fyrirliði Víkings
Sölvi Geir Ottesen fyrirliði Víkings Ljósmynd/Kristinn Steinn

Sölvi Geir Ottesen fyrirliði Víkings segir sína menn spennta fyrir bikarúrslitaleik Mjólkurbikars karla í knattspyrnu sem fram fer á laugardaginn. Leikurinn verður jafnframt síðasti leikur Sölva á ferlinum.

Víkingur var með nokkra leikmenn í landsliðsverkefnum í landsleikjahléinu en hann segir það ekki hafa haft áhrif á undirbúning liðsins. Þeir Kwame Quee og Pablo Punyed þurfa báðir að ferðast langa leið til Íslands eftir sín verkefni. „Þetta verkefni leggst mjög vel í okkur. U21 árs landsliðsstrákarnir okkar eru að koma til okkar, Kwame og Pablo koma bráðum. Það er búið að vera fínt tempó á æfingum en samt smá slaki yfir þessu. Nú finnur maður að spennustigið er að magnast og menn orðnir einbeittari og tilbúnir í þetta.“

Víkingur getur orðið Íslandsmeistari og bikarmeistari sama sumar í fyrsta skiptið í sögu félagsins á laugardaginn. „Vissulega er það gulrót að eltast við það en þetta er keppnisleikur og það á að vera nóg til að drífa menn áfram. Vissulega er þetta mjög stór leikur og það heillar mjög mikið að ná að vinna tvöfalt. Við stefnum á það.“

Von er á fjölda fólks á leikinn en stuðningsmenn beggja liða vöktu mikla athygli fyrir frammistöðu sína, sérstaklega undir lok sumars. „Víkingsstuðningsmenn eru búnir að vera frábærir í ár og ég býst ekki við neinu öðru en að þeir haldi því áfram. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem lið að finna fyrir stuðningi og þeir hafa svo sannarlega hjálpað til við að ná þessum árangri í sumar.“

mbl.is