Íslandsmeistararnir styrkja sig

Birnir Snær Ingason er á leið í Fossvoginn.
Birnir Snær Ingason er á leið í Fossvoginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Birnir Snær Ingason er að ganga til liðs við Íslandsmeistara Víkings úr Reykjavík samkvæmt heimildum mbl.is.

Víkingar hafa boðað til blaðamannafundar í Víkinni í hádeginu á morgun þar sem Birnir Snær verður kynntur til leiks.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, staðfesti í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins, á dögunum að Víkingar hefðu lagt fram tilboð í leikmanninn og að það væri forgangsatriði hjá félaginu að semja við sóknarmanninn.

Birnir Snær, sem er 24 ára gamall, hefur leikið með HK í Kópavogi undanfarin tvö tímabil en hann er uppalinn hjá Fjölni í Grafarvogi. Hann hefur einnig leikið með Val hér á landi.

Alls á hann að baki 121 leik í efstu deild þar sem hann hefur skorað 25 mörk en hann lék 21 leik með HK í úrvalsdeildinni í sumar þar sem hann skoraði 6 mörk. Þá á hann að baki þrjá landsleiki fyrir U21-árs landslið Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert