„Ætlum að vinna bikarúrslitin“

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA.
Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari karlaliðs ÍA í knattspyrnu er spenntur fyrir úrslitaleik Mjólkurbikarsins sem fer fram á morgun. „Stemningin er góð, bæði hjá leikmönnum og öllu samfélaginu uppá Skaga.“

„Eins og sýndi sig í síðustu leikjunum okkar þá er stuðningurinn gríðarlega góður og leikmenn, þjálfarar og allir Skagamenn munu koma af fullum krafti inn í leikinn á laugardaginn. Þetta verður mikil stemning og mikið fjör og við erum klárir í það. Ég hef sagt það áður og segi það aftur núna að við erum ekki komnir hingað til að fagna því að vera komnir í bikarúrslit heldur ætlum við að vinna bikarúrslitin," sagði Jóhannes Karl við mbl.is í gær.

Talsvert langt er síðan ÍA vann síðast titil. Jóhannes Karl er staðráðinn í að breyting verði á því.

„Það er dauðafæri til að vinna titil. Það yrði gríðarlega stórt fyrir okkur og það er bara það sem við ætlum okkur að gera. Við vitum að við erum náttúrlega að mæta besta liði landsins, frábærlega mannað lið með frábæran þjálfara. Það breytir því þó ekki að það eru veikleikar í öllum liðum og við teljum okkur geta keyrt á þá og unnið leikinn.“

Bæði lið hafa fengið langa pásu frá því Íslandsmótið kláraðist og verður fróðlegt að sjá hvort leikmenn verði eitthvað ryðgaðir.

„Auðvitað er þetta svolítið langur tími síðan deildin og undanúrslitin klárast en við breytum því ekki. Við höfum náð að hlaða batteríin og undirbúningurinn í þessari viku hefur verið mjög góður. Við erum auðvitað búnir að mæta Víkingi tvisvar í sumar og það voru hörkuleikir svo við búumst ekki við neinu öðru núna. Undirbúningurinn okkar hefur verið mjög góður sem þýðir það að við munum koma að fullum krafti inn í þennan leik.“

Miðasala á leikinn gengur vel og er von á fjölda fólks í stúkuna. „Ég er nokkuð viss um það að stuðningurinn verður góður og ég hugsa að við förum yfir 5000 manns á þessum leik. Þetta verður frábær dagur, veðurspáin lofar góðu og ég lofa hörkuleik sem mun samt verða aðeins betri fyrir okkur Skagamenn en Víkinga," sagði Jóhannes Karl Guðjónsson við mbl.is.

mbl.is