Ágúst tekur við þjálfun Stjörnunnar

Ágúst Þór Gylfason.
Ágúst Þór Gylfason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ágúst Þór Gylfason hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í knattspyrnu og hann tekur við liðinu af Þorvaldi Örlygssyni sem er kominn í annað starf hjá Garðabæjarfélaginu.

Ágúst hefur þjálfað Gróttu undanfarin tvö ár, í úrvalsdeild og 1. deild. Þar á undan var hann með lið Breiðabliks í tvö ár en lengst hefur hann þjálfað karlalið Fjölnis, á árunum 2012 til 2017.

Hann er fimmtugur að aldri og lék sjálfur um árabil með Fram, Val, KR og Fjölni en einnig norska liðinu Brann og svissneska liðinu Solothurn, og spilaði sex landsleiki fyrir Íslands hönd.

Stjarnan hafnaði í sjöunda sæti deildarinnar í ár og var aðeins tveimur stigum frá fallsæti en þetta er slakasti árangur liðsins í ellefu ár. Rúnar Páll Sigmundsson hætti óvænt störfum sem þjálfari liðsins eftir fyrstu umferð deildarinnar í vor en Þorvaldur, sem hafði verið ráðinn við hlið hans, hélt áfram með liðið út tímabilið með Ejub Purisevic sér til aðstoðar.

mbl.is