Gamla ljósmyndin: Mjólkurbikarinn

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Í dag verður leikið til úrslita í Mjólkurbikarkeppni karla í knattspyrnu en bikarkeppni KSÍ hefur af og til í gegnum árin verið kölluð Mjólkurbikarinn. 

Á meðfylgjandi mynd fagna Skagamenn sigri í bikarkeppninni árið 1993 og gera það meðal annars með því að baða sig í mjólk á Laugardalsvellinum. 

Harðjaxlinn Ólafur Þórðarson sést til dæmis sturta mjólk yfir Þórð Guðjónsson sem er nánast orðinn alhvítur í framan. Lengst til vinstri á myndinni má einnig sjá Lúkas Kostic sem þarna lék sitt síðasta tímabil á Skaganum. 

Lið ÍA var illviðráðanlegt sumarið 1993 og sigraði á Íslandsmótinu með yfirburðum því liðið vann sextán leiki, gerði eitt jafntefli og tapað aðeins einum leik. Í úrslitaleik Mjólkurbikarsins lagði ÍA lið Keflavíkur að velli 2:1. Lið ÍA var svo sterkt að hollenska stórliðið Feyenoord átti í mesta basli með að slá ÍA út í 1. umferð Meistaradeildar Evrópu. Með Feyenoord lék þá Arnar Gunnlaugsson sem stýrir Víkingi í úrslitaleiknum í dag. 

Þórður Guðjónsson sprakk út með miklum látum sumarið 1993 og jafnaði markametið sem Pétur Pétursson setti sem leikmaður ÍA árið 1978 og Framarinn Guðmundur Torfason hafði jafnað árið 1986. Skoraði Þórður 19 mörk í 18 leikjum með ÍA árið 1993. Hann skoraði fyrra markið í bikarúrslitaleiknum og lagði upp hið síðara fyrir Mihajlo Bibercic. Í millitíðinni hafði Marko Tanasic jafnað fyrir Keflavík. Bróðir Þórðar, Jóhannes Karl Guðjónsson, stýrir ÍA í úrslitaleiknum í dag. 

Myndin tók Ragnar Axelsson eða Rax sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áratugi. Birtist myndin á forsíðu íþróttablaðs Morgunblaðsins hinn 31. ágúst 1993. 

Úrslitaleikur ÍA og Víkings hefst á Laugardalsvelli klukkan 15 í dag. 

mbl.is