Hefði sent hann á einhverja stofnun

Víkingur er bikarmeistari karla í fótbolta árið 2021.
Víkingur er bikarmeistari karla í fótbolta árið 2021. Ljósmynd/Óttar Geirsson

„Nei, ég hefði sent hann á einhverja stofnun og athugað hvað væri að honum í hausnum,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings, í samtali við mbl.is aðspurður hvort hann hefði trúað því fyrir ári síðan ef einhver hefði sagt honum Víkingur yrði tvöfaldur meistari á þessari leiktíð.

Víkingur vann 3:0-sigur á ÍA í bikarúrslitum í dag og varð fyrir vikið bikarmeistari annað sinn í röð og tvöfaldur meistari á leiktíðinni í íslenska fótboltanum. Þá léku varnarmennirnir Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen sinn síðasta leik á ferlinum.

„Auðvitað hefur maður sína drauma og væntingar í fótbola en þetta er of mikið einhvern veginn. Ég sætti mig samt við þetta. Þetta er extra sérstakt því þetta var lokaárið hjá Kára og Sölva. Ég veit þetta er dagur Víkinga og allt það en það er ótrúlegt að geta kvatt þá svona.“

Arnar segir 3:0 ekki endilega gefa rétta mynd af hvernig leikurinn spilaðist. „Það voru fleiri mörk í þessum leik. Skaginn fékk dauðafæri og við fengum okkar dauðafæri. Þetta var opinn og skemmtilegur leikur þótt það hafi vantað upp á gæðin stundum. Það var skrifað í skýin að við myndum vinna tvöfalt í ár,“ sagði Arnar kátur.

mbl.is