Víkingur er tvöfaldur meistari

Víkingur úr Reykjavík vann sinn þriðja bikarmeistaratitil í fótbolta í karlaflokki er liðið vann sanngjarnan 3:0-sigur á ÍA í bikarúrslitum á Laugardalsvelli í dag. Víkingur tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn á dögunum og er því tvöfaldur meistari og bikarmeistari í annað sinn í röð.

Víkingur var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og það var verðskuldað þegar Erlingur Agnarsson kom liðinu yfir á 18. mínútu. Erlingur slapp þá einn gegn Árna Marinó Einarssyni í marki ÍA eftir sendingu frá Pablo Punyed og skoraði af öryggi.

Víkingar fullkomnuðu svo góðan fyrri hálfleik með marki í uppbótartíma seinni hálfleiks þegar Kári Árnason skoraði með skalla eftir hornspyrnu frá Pablo Punyed. Staðan í leikhléi var því 2:0.

Skagamenn náðu ekki að skapa sér mikið af færum gegn skipulögðu og góðu Víkingsliði. Gísli Laxdal Unnarsson átti tvo bestu færi Skagamanna en hann skallaði framhjá úr fínu færi snemma leiks og átti svo fast skot um miðjan fyrri hálfleikinn sem Ingvar Jónsson í marki Víkinga varði vel.

Víkingar voru áfram sterkari í seinni hálfleik og Erlingur slapp aftur einn í gegn í byrjun seinni hálfleiks en þá varði Árni frá honum. Eftir rúmlega klukkutíma leik var Pablo Punyed nálægt því að skora þriðja markið en hann negldi í stöngina úr teignum. Kristall Máni Ingason náði ekki að skora úr frákastinu.

Skagamenn fengu líka sín færi og það besta kom á 65. mínútu. Gísli Laxdal slapp þá einn í gegn eftir flotta sendingu frá Steinari Þorsteinssyni en Ingvar varði virkilega vel frá honum. Víkingar áttu svo annað stangarskot skömmu síðar er varamaðurinn Kwame Quee lék á nokkra varnarmenn og negldi boltanum í nærstöngina.  

Þriðja markið kom loksins í uppbótartíma er varamaðurinn Helgi Guðjónsson slapp einn í gegn og skoraði af öryggi og fullkomnaði í leiðina stórkostlegt tímabil Víkings. 

ÍA 0:3 Víkingur R. opna loka
90. mín. Það gera þeir hinsvegar ekki. Að lokum er dæmd aukaspyrna á Ísak Snæ sem keyrði inn í Ingvar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert