Eiður tekur við Þrótti

Eiður Benedikt Eiríksson á hliðarlínunni hjá kvennaliði Vals.
Eiður Benedikt Eiríksson á hliðarlínunni hjá kvennaliði Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eiður Benedikt Eiríksson hefur verið ráðinn aðalþjálfari karlaliðs Þróttar úr Vogum í knattspyrnu.

Þetta tilkynnti knattspyrnudeild félagsins á samfélagsmiðlum rétt í þessu.

Eiður var síðast annar aðalþjálfara kvennaliðs Vals og stýrði liðinu ásamt Pétri Péturssyni til Íslandsmeistaratitilsins á þessu tímabili.

Í síðasta mánuði tilkynnti Eiður að hann yrði ekki áfram hjá Val og hefur hann legið undir feldi að undanförnu eftir að hafa fengið fjölda tilboða, karla- og kvennamegin, aðal- og aðstoðarþjálfarastöður.

Hann tekur við liði Þróttar af Hermanni Hreiðarssyni sem tók á dögunum við uppeldisfélagi sínu ÍBV.

Hermann stýrði Þrótti til sigurs í 2. deildinni í sumar og leikur liðið því í 1. deild á næsta tímabili undir stjórn Eiðs.

Þeir Eiður og Hermann unnu á sínum tíma saman hjá kvennaliði Fylkis þegar Hermann var þar aðalþjálfari og Eiður aðstoðarþjálfari.

mbl.is