„Þetta er risastórt félag“

Aron Snær Friðriksson
Aron Snær Friðriksson Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Markvörðurinn Aron Snær Friðriksson gekk í síðustu viku til liðs við knattspyrnulið KR frá Fylki. Hann var til viðtals á blaðamannafundi í dag þar sem einnig voru tilkynntir þeir Sigurður Bjartur Hallsson og Stefan Alexander Ljubicic.

„Tilfinningin er mjög góð. Þetta er risastórt félag og risastórt skref fyrir mig. Ég er bara mjög spenntur fyrir þessu.“

Hjá KR er fyrir markvörðurinn Beitir Ólafsson sem hefur staðið sig með prýði síðustu ár. Aron segist vera tilbúinn í að samkeppni við hann.

„Beitir er búinn að vera einn besti markmaðurinn á Íslandi núna í nokkur ár að mínu mati en ég er bara tilbúinn í þessa samkeppni. Mér fannst ég þurfa að taka skrefið áfram og þetta var í boði, mér líst bara mjög vel á þetta allt saman.“

Fyrrum félag Arons, Fylkir, féllu úr efstu deild í sumar og spila því í þeirri næstu efstu að ári. Aron segir að það hafi vel komið til greina að taka slaginn áfram í Árbænum.

„Já ég hugsaði þetta allt og í lokin voru þetta tvö lið, Fylkir og KR sem komu til greina. Maður er orðinn mikill Fylkismaður eftir allan þennan tíma og líður eins og uppöldum en þegar KR kom upp þá fannst mér það mest spennandi og stökk á það.“

Í laugardaginn kom í ljós að KR mun leika í Evrópukeppni á næsta ári eftir að Víkingur varð bikarmeistari. Það þýddi að þriðja sæti deildarinnar dugði til þátttöku í Evrópukeppni.

„Við getum þakkað Víkingi fyrir það! Nei strákarnir gerðu vel að ná þriðja sætinu, það var alltaf möguleiki að það myndi gefa Evrópusæti. Þeir gerðu það mjög vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert