Allt annað að vera hjá AC Milan en Napoli

Guðný Árnadóttir í leik með íslenska landsliðinu gegn Hollandi í …
Guðný Árnadóttir í leik með íslenska landsliðinu gegn Hollandi í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðný Árnadóttir, leikmaður AC Milan á Ítalíu og íslenska kvennalandsliðsins, segist hæstánægð með að hafa tekið skrefið í atvinnumennskuna á Ítalíu.

AC Milan keypti hana frá Val undir lok síðasta árs og var hún strax lánuð til Napoli í sömu deild, ítölsku A-deildinni.

„Já klárlega, það er bara gaman að fá að prófa eitthvað nýtt. Þetta er svolítið öðruvísi fótbolti en ég er vön og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt, bæði hjá Napoli og svo núna hjá AC Milan þar sem er meiri samkeppni og betri leikmenn.

Ég er mjög ánægð með að hafa tekið þetta skref,“ sagði Guðný á Teams-fjarfundi með blaðamönnum í dag, en hún lék síðari hluta síðasta tímabils með Napoli á láni og sneri aftur í raðir AC Milan í sumar.

Spurð hvort það væri mikill munur á liðunum tveimur sagði Guðný: „Já þetta er bara allt öðruvísi þannig séð. Í fyrsta lagi var kannski aðeins auðveldara að komast inn í tungumálið núna og vita hvernig þetta virkar.“

Hún var þá spurð hvort henni þætti erfitt að skilja fólk í Napolí eða hvort hún væri einfaldlega komin með betri tök á ítölskunni yfir höfuð.

„Ég var farin að skilja meira þegar ég kom til AC Milan en ég held að núna skilji ég varla fólkið í Napolí, það er aðeins öðruvísi mállýska þar. En jú þetta var það að vera komin með meiri tök á ítölskunni, skilja meira fótboltamálið. Það hjálpaði klárlega mikið þegar ég kom,“ sagði Guðný.

Vill vinna titil með AC Milan

„Svo varðandi fótboltann þá er þetta auðvitað betra lið og það er búið að vera erfiðara að komast í liðið hjá AC Milan. Ég er búin að vera inn og út úr liðinu en er búin að byrja síðustu tvo leiki.

Þarna er ég meira að reyna að vinna mig inn í liðið á meðan ég byrjaði strax að spila og spilaði hverja einustu mínútu hjá Napoli,“ bætti hún við.

Spurð hvort hún væri með einhver viss markmið hjá AC Milan sagði hún:

„Þetta er frekar nýtt lið og fyrir mér væri geggjað að vinna titil með þessu félagi. Það væri bara draumur. Það er svona markmiðið bæði hjá mér og liðinu, það væri ógeðslega gaman að ná því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert