Sakaður um kynferðisbrot ásamt Aroni Einari

Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður FH.
Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður FH. Ljósmynd/Sigurður Ragnarsson

Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður úrvalsdeildarliðs FH, er sá knattspyrnumaður sem sakaður hefur verið um kynferðisbrot ásamt landsliðsfyrirliðanum Aroni Einari Gunnarssyni.

Þetta staðfesti Viðar Halldórsson, formaður aðalstjórnar FH, í samtali við Stundina í dag en umrætt atvik átti sér stað í Kaupmannahöfn í Danmörku árið 2010.

Málið var tekið upp að nýju hjá lögreglu á dögunum en Aron Einar var ekki valinn í íslenska landsliðshópinn fyrir leikina gegn Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM í október og sendi frá sér harðorða yfirlýsingu í kjölfarið þar sem hann gagnrýndi KSÍ.

„Hver segir að það sé lögreglurannsókn í gangi?“ Í fyrsta lagi veit hvorki þú né ég hvort þessir menn hafi verið kærðir, enda áhöld um hvort búið sé að kæra. Það skulum við fyrst hafa á hreinu,“ segir Viðar í samtali við Stundina.

RÚV greindi frá því í lok september að rannsókn í máli Arons og Eggerts hefði verið tekin upp að nýju en málið vakti fyrst athygli í maí á þessu ári þegar meintur brotaþoli deildi upplifun sinni af meintri nauðgun á samfélagsmiðlum.

„Við vitum að Eggert Gunnþór Jónsson er annar aðilanna í þessu máli sem kom upp á yfirborðið í maí á þessu ári. Það vissum við þegar líða fór á sumarið,“ sagði Viðar sem var staddur í Danmörku þegar umrætt atvik á að hafa átt sér stað en hann var þá meðlimur í landsliðsnefnd knattspyrnusambandsins.

 „Við sem vorum þar heyrðum aldrei af þessu máli, aldrei. Það sjá allir að ellefu ára gamalt mál … ég ætla ekki að segja að hún sé að ljúga. Ég ætla heldur ekki að segja að Eggert Gunnþór eða Aron Einar séu að ljúga. Ég get það ekki. Ég var ekki þarna. Ég var í Kaupmannahöfn, en ég var ekki á staðnum,“ bætti Viðar við. 

mbl.is