Sáu það í fjölmiðlum að þeir gætu orðið meistarar

„Við settumst aldrei niður til þess að fara yfir markmið tímabilsins,“ sagði Halldór Smári Sigurðsson, leikmaður Íslands- og bikarmeistara Víkings í knattspyrnu, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Reykjavíkurvíkingar urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í 30 ár hinn 25. september eftir 2:0-sigur gegn Leikni úr Reykjavík í lokaumferð deildarinnar á Víkingsvelli í Fossvogi.

Þá varð liðið einnig bikarmeistari um síðustu helgi eftir 3:0-sigur gegn ÍA á Laugardalsvelli en þetta er í fyrsta sinn í sögu félagsins sem liðið vinnur tvöfalt.

„Við settumst nokkrum sinnum niður og horfðum á næstu þrjá leiki og veltum fyrir okkur möguleikum okkar en það voru bara einhverjar skammtímapælingar,“ sagði Halldór Smári.

„Arnar [Gunnlaugsson] kom í eitthvað viðtal eftir einhvern leik, seinni hluta tímabilsins, þar sem hann segir að við getum alveg orðið Íslandsmeistarar og þá fattaði maður það einhvern veginn að það væri alveg möguleiki,“ sagði Halldór Smári.

Viðtalið við Halldór Smára í heild sinni má nálgast með því að smella hér. 

mbl.is