Íslenskur stórsigur í Laugardal

Ísland vann sinn fyrsta sigur í C-riðli undankeppni HM 2023 í knattspyrnu þegar liði tók á móti Tékklandi á Laugardalsvelli í kvöld. Leiknum lauk með 4:0-stórsigri Íslands en staðan var 1:0 í hálfleik.

Tékkar áttu fyrsta marktækifæri leiksins á 4. mínútu þegar Katerina Svitková reyndi skot af 25 metra færi en boltinn fór beint í hendurnar á Söndru Sigurðardóttur í marki íslenska liðsins.

Klára Cahynová fékk mjög gott færi til að koma Tékkum yfir fjórum mínútum síðar þegar boltinn datt fyrir hana í vítateig íslenska liðsins en skot hennar fór beint á Söndru.

Á 12. mínútu dró til tíðinda þegar Karólína Lea Vilhjálmsdóttir átti frábæra fyrirgjöf frá vinstri. Berglind Björg Þorvaldsdóttir gerði frábærlega í að koma sér fram fyrir varnarmenn Tékka og reka tánna í boltann. Boltinn fór í stöngina og í bakið á Barboru Votíkovu í marki Tékklands og þaðan í netið.

Tereza Krejciríková átti fast skot frá vítateigshorninu, úti vinstra megin, á 20. mínútu en enn og aftur fór boltinn beint á Söndru í markinu.

Guðrún Arnardóttir átti fallegan skalla á 27. mínútu eftir aukaspyrnu Karólínu Leu frá hægri en hún sneiddi boltann framhjá markinu.

Leikurinn róaðist mikið eftir þetta og það var svo Kamila Dubracová sem fékk besta færi hálfleiksins á 43. mínútu þegar hún fékk frían skalla í markteig íslenska liðsins en Sandra var vel staðsett og greip boltann nokkuð þægilega frá henni.

Tékkar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og settu mikla pressu á íslenska liðið sem gerði vel í að standa hana af sér.

Berglind Björg átti skot í þverslá af stuttu færi á 51. mínútu þegar Dagný Brynjarsdóttir skallaði boltann snyrtilega fyrir fætur hennar í vítateig Tékkanna.

Fjórum mínútum síðar átti Tereza Krejciríková fast skot af 25 metra færi sem Sandra gerði mjög vel í að verja.

Á 58. mínútu datt boltinn fyrir fætur Guðrúnar Arnardóttur í vítateig Tékka eftir hornspyrnu frá vinstri en Votíkova í marki Tékkanna varði mjög vel frá henni. Karólína Lea tók hornspyrnuna stutt á Öglu Maríu Albertsdóttir sem átti hnitmiðaða sendingu inn á teiginn sem Dagný Brynjarsdóttir skallaði af krafti í netið.

Tékkar settu meiri pressu á íslenska liðið eftir þetta, án þess þó að skapa sér afgerandi marktækifæri.

Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði svo þriðja mark íslenska liðsins á 81. mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður eftir fyrirgjöf Guðnýjar Árnadóttur en boltinn barst til Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur sem tíaði hann upp fyrir Svövu Rós sem skoraði af stuttu færi úr teignum.

Það var svo Gunnhildur Yrsa sem bætti við fjórða markinu tveimur mínútum síðar þegar hún skoraði af stuttu færi eftir frábæra fyrirgjöf Guðnýjar.

Ísland fer með sigrinum í 3 stig og er áfram í fjórða sæti riðilsins, líkt og Hvíta-Rússland. Tékkar eru í öðru sætinu með 4 stig en Holland er í efsta sætinu með 7 stig. Ísland hefur leikið tvo leiki í undankeppninni en Holland og Tékkland þrjá leiki.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ísland 4:0 Tékkland opna loka
90. mín. +4 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is