Alþjóðlegar streymisveitur sýna frá Íslandsmóti karla

Íslandsmeistarar karla í knattspyrnu, Víkingur Reykjavík.
Íslandsmeistarar karla í knattspyrnu, Víkingur Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenskur Toppfótbolti, ÍTF, samtök efstudeildafélaga á Íslandi, hefur gengið til liðs við Evrópsku deildasamtökin og hefur gert þriggja ára samning við tvær alþjóðlegar streymisveitur sem fá leyfi til að sýna leiki úr efstu deild karla á Íslandsmótinu.

Í tilkynningu frá ÍTF kemur fram að innan evrópsku samtakanna séu 40 deildir í 30 löndum. Samningurinn við veiturnar felur m.a. í sér að þrír leikir úr efstu deild karla verða í boði í hverri umferð og allavega einum þeirra verður lýst á ensku. Tekur það gildi á næsta tímabili en samningurinn er til þriggja ára. 

Tilkynningin frá ÍTF: 

„Í dag undirrituðu fulltrúar ÍTF, EL og 8 annarra deilda 3-ára samning við tvær alþjóðlegar streymisveitur, The Eleven Group (stærstu fótbolta-streymisveitu heims með yfir 660 milljónir notenda á www.ElevenSports.com , 40.000 leiki sýnda 2021 í yfir 200 löndum) og OneFootball (með um 100 millónir notenda hvern mánuð að ýmsu hliðarefni, www.onefootbball.com ).

Þessi tímamótasamningur snýst um dreifingu leikja í 9 efstu deildum karla í Evrópu til áskrifenda um allan heim. Hann tryggir að íslenskur fótbolti verður í fyrsta sinn aðgengilegur um heim allan. Í samningnum, sem tekur gildi varðandi Ísland í upphafi næstu leiktíðar, felst að 3 leikir úr efstu deild karla verða í boði í hverri umferð og amk einum þeirra verður lýst með enskum þul. Dreifingu til erlendu aðilanna, sérstaka framleiðslu og hýsingu myndefnis annast ÍTF og samstarfsfyrirtæki.

Orri Hlöðversson, formaður ÍTF, undirritaði samninginn í dag á aðalfundi EL í Mílano, en ÍTF var einmitt samþykkt sem fertugast meðlimur samtakanna á fundinum.

„Hér erum við að stíga stórt skref fyrir íslenska knattspyrnu, reyndar það fyrsta af mörgum sem framundan eru varðandi sjónvarps- og markaðsréttindi. Það er ákaflega mikilvægt að geta veitt aukinn aðgang að íslenskum fótbolta alls staðar í heiminum. Samningurinn gerir það að verkum að skyndilega er íslenska karladeildin komin á bekk með efstu deildum til dæmis í Danmörku, Noregi, Sviss og Póllandi. Það eru gríðarlega spennandi tímar framundan í íslenskum fótbolta í þessum efnum“, sagði Orri eftir undirritunina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert