Fáránleg umræða

Þorsteinn Halldórsson sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Laugardalnum í …
Þorsteinn Halldórsson sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Laugardalnum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fyrir okkur snýst þetta fyrst og fremst um að það að bera virðingu fyrir andstæðingnum og mæta þannig inn í leikinn,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Ísland mætir Kýpur í C-riðli undankeppni HM 2023 á Laugardalsvelli á morgun en íslenska liðið vann afar mikilvægan 4:0-sigur gegn Tékklandi á föstudaginn síðasta.

Íslenska liðið er með 3 stig í fjórða og næst neðsta sæti riðilsins eftir tvo spilaða leiki en getur skotist í annað sæti riðilsins og upp fyrir Tékkland með sigri gegn Kýpur.

„Við þurfum að spila á okkar allra besta og vera tilbúin að leggja allt í leikinn. Við nálgumst verkefnið þannig að við ætlum okkur að vinna þennan leik og til þess þurfum við að mæta í hann með réttu hugarfari.

Ég hef engar áhyggjur af því að leikmenn geri það ekki því við erum öll með okkar markmið. Það þýðir ekkert hálfkák í þessu, ef við ætlum okkur að ná í úrslit þurfum við að mæta almennilega stemmd til leiks,“ sagði Þorsteinn.

Leikmenn íslenska liðsins fagna marki gegn Tékkum á fimmtudaginn.
Leikmenn íslenska liðsins fagna marki gegn Tékkum á fimmtudaginn. mbl.is/Unnur Karen

Fyrst og fremst að hugsa um sigur

Kýpur hefur tapað fyrstu tveimur leikum sínum í undankeppninni 0:8, gegn Tékklandi og Hollandi, og eru í neðsta sæti riðilsins án stiga.

„Það er mikill dugnaður í þessu Kýpurliði þó úrslitin í síðustu tveimur leikjum hjá þeim hafi ekki verið góð. Þær áttu í ákveðnu basli á móti Hollandi enda frábært lið og þær voru í basli með föstu leikatriðin á móti Tékklandi.

Hollendingarnir spiluðu meira í gegnum þær á meðan Tékkarnir refsuðu þeim úr hornspyrnum og föstum leikatriðum. Þær fengu hins vegar færi í báðum leikjum og komu sér oft í fínar stöður.

Við getum því ekki nálgast þennan leik eins og við séum að fara labba í gegnum þær. Við þurfum að nálgast verkefnið af festu og krafti. Það er fáránlega umræða að við séum að fara vinna leikinn 10:0, við erum fyrst og fremst að hugsa um að vinna hann,“ bætti Þorsteinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert