„Geggjað að fá tækifæri“

Amanda Andradóttir gefur fyrir markið í leiknum í kvöld.
Amanda Andradóttir gefur fyrir markið í leiknum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Hin unga og bráðefnilega Amanda Andradóttir byrjaði sinn fyrsta A-landsleik þegar íslenska landsliðið vann öruggan 5:0 sigur gegn Kýpur í undankeppni HM 2023 á Laugardalsvelli í kvöld.

Amanda lék allar 90 mínúturnar og lagði upp eitt marka liðsins. Hún var ánægð með að fá tækifærið í byrjunarliðinu.

„Það var bara mjög gaman og sérstaklega í svona leik þar sem við erum mikið með boltann og sköpum fullt af færum. Það var geggjað að fá tækifæri,“ sagði Amanda í samtali við RÚV eftir leik.

Hún var þá spurð hvernig hennar kynni af íslenska landsliðshópnum hafi verið.

„Hópurinn er bara geggjaður, fullt af mjög skemmtilegum stelpum og þær eru allar frábærar í fótbolta þannig að það er mjög gaman að koma inn í hópinn,“ sagði hún og bætti við að vel sé hugsað um hana:

„Já þær eru allar mjög „næs“ við mig.“

Hvernig þótti Amöndu ganga í fyrsta byrjunarliðsleiknum?

„Bara ágætlega. Ég var náttúrlega að spila vinstri kant, ég er ekkert mjög vön að spila þar en það var bara mjög gaman.“

Að lokum var hún spurð hvort Íslendingar myndu ekki áfram fá að sjá hana í íslensku treyjunni. „Ég vona það. Það er allavega markmiðið,“ sagði Amanda að lokum í samtali við RÚV, en hún á enn möguleika á að velja að spila fyrir norska landsliðið.

mbl.is