„Ótrúleg framtíð í íslenska kvennalandsliðinu“

Sif Atladóttir sneri aftur í lið íslenska kvennalandsliðsins í kvöld.
Sif Atladóttir sneri aftur í lið íslenska kvennalandsliðsins í kvöld. Eggert Jóhannesson

Sif Atladóttir sneri aftur í íslenska kvennalandsliðið eftir tveggja ára hlé og bar fyrirliðabandið í 5:0 sigri gegn Kýpur í undankeppni HM 2023 á Laugardalsvelli í kvöld.

„Bara æðisleg. Það er mikill heiður að fá að bera fyrirliðabandið og sérstaklega á heimavelli og ég er bara ógeðslega stolt af því,“ sagði Sif í samtali við RÚV eftir leik, spurð um hvernig tilfinningin væri að snúa aftur með þessum hætti.

Hún var þá spurð um hvort hún muni eftir annarri eins samkeppni á meðal leikmanna íslenska landsliðsins um stöður.

„Ekki svona eins og þetta er í dag. Með þessari kynslóð eru þetta svolítið öðruvísi leikmenn en ég og mín kynslóð, ég er pínu að deyja út ef maður hugsar það þannig.

En þetta eru stórkostlegar stelpur sem eru búnar að leggja sig mikið fram og það sést bara á spilamennskunni. Við hefðum kannski viljað opna þær aðeins betur en það er alveg ótrúleg framtíð í íslenska kvennalandsliðinu,“ sagði Sif.

Hún sagði leikinn í kvöld hafa verið erfiðan á köflum. „Kýpur eru vel skipulagðar og liggja þétt til baka þannig að það krefst alveg ofboðslegrar þolinmæði. Við sýndum það svolítið betur í fyrri hálfleik en seinni hálfleik, þá var erfiðara að opna þær.

Við vinnum leikinn og auðvitað má alltaf bæta eitthvað og það munum við gera. Þetta er öðruvísi tilfinning að þurfa að vera með boltann svona rosalega mikið, sem er bara frábær þróun fyrir okkur. Það er gaman að vinna í dag og gera það svona vel fyrir framan okkar land og þjóð,“ sagði Sif að lokum í samtali við RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert