„Vinstri fóturinn var dreginn fram í dag“

Elísa Viðarsdóttir (lengst t.h.) lék afar vel í kvöld.
Elísa Viðarsdóttir (lengst t.h.) lék afar vel í kvöld. Kristinn Magnússon

Elísa Viðarsdóttir átti frábæran leik í vinstri bakverði og lagði upp þrjú marka Íslands í 5:0 sigri gegn Kýpur í undankeppni HM 2023 á Laugardalsvelli í kvöld.

Elísa leikur að öllu jöfnu sem hægri bakvörður en leið vel vinstra megin í kvöld.

„Ég held að ég hafi bara skilað mínu verki nokkuð vel í dag. Hægra eða vinstra megin, þetta á ekkert að skipta neitt rosalega miklu máli.

Vinstri fóturinn var bara dreginn fram í dag og það gekk ágætlega. Ég er bara mjög sátt við mitt dagsverk en ég er líka með frábæra hausa þarna inni í teig sem eru gammar og pikka upp þessa bolta sem voru að detta fyrir þær,“ sagði Elísa í samtali við RÚV eftir leik.

Spurð nánar út í leikinn í kvöld sagði hún að íslenska liðið hefði viljað gera aðeins betur í sóknarleiknum.

„Ég held að við hefðum getað nýtt margar stöður betur á vellinum í dag, á síðasta þriðjungnum. En við skorum fimm og héldum markinu okkar hreinu þannig að við þurfum að ganga sáttar frá borði held ég.“

Elísa sagði liðið enda ekki kvarta undan niðurstöðunni og góðri uppskeru í landsleikjaglugganum, þar sem 4:0 sigur vannst gegn Tékklandi á föstudag.

„Alls ekki. Þetta var frábært verkefni, hópurinn þétti sig vel saman og þetta gefur bara góða raun fyrir næstu leiki.“

En ætlar Elísa að freista þess að eigna sér vinstri bakvarðar stöðuna í framtíðinni?

„Ég veit það ekki, við verðum bara að sjá hvernig þjálfarinn velur liðið en ég er alltaf klár,“ sagði hún að lokum í samtali við RÚV.

mbl.is