Ný gögn í máli Arons og Eggerts

Aron Einar Gunnarsson og Eggert Gunnþór Jónsson lengst til vinstri.
Aron Einar Gunnarsson og Eggert Gunnþór Jónsson lengst til vinstri. AFP

„Ég get staðfest að við höfum hafið rannsókn að nýju í máli sem kom fyrst inn á borð til okkar árið 2010,“ sagði Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, í samtali við The Athletic.

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, og Eggert Gunnþór Jónsson hafa verið sakaðir um nauðgun en atvikið á að hafa átt sér stað í Kaupmannahöfn árið 2010. Málið var tekið upp að nýju hjá lögreglu á dögunum en báðir hafa þeir neitað sök í því.

The Athletic fjallar ítarlega um meint ofbeldis- og kynferðisbrot innan knattspyrnuhreyfingarinnar í grein sem birtist á vef miðilsins í dag en þar er meðal annars rætt við yfirmann kynferðisbrotadeildar lögreglunnar.

„Við höfum fengið nýjar upplýsingar um málið og lögum samkvæmt megum við opna málið á nýjan leik ef það er grundvöllur fyrir því,“ sagði Ævar.

„Ég get staðfest það að við höfum mjög góða ástæðu til þess að opna málið að nýju vegna nýrra gagna sem við höfum undir höndum. Eins höfum við rætt við fjölda fólks,“ sagði Ævar Pálmi enn fremur.

mbl.is