Saka Jóhann Berg um þöggun og gerendameðvirkni

Jóhann Berg Guðmundsson dró sig úr síðasta landsliðhóp.
Jóhann Berg Guðmundsson dró sig úr síðasta landsliðhóp. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Jóhann Berg Guðmundsson er gagnrýndur harðlega af aðgerðahópnum Öfgum í umfjöllun The Ahletic um meint ofbeldis- og kynferðisbrot innan knattspyrnuhreyfingarinnar en miðillinn birti ítarlega grein um málefni KSÍ og íslenska karlalandsliðsins á heimasíðu sinni í morgun.

Jóhann Berg Guðmundsson dró sig úr íslenska landsliðshópnum fyrir verkefni liðsins í október gegn Armeníu og Liechtenstein.

Leikmaðurinn gagnrýndi meðal annars vinnubrögð KSÍ í viðtali við 433.is en Aroni Einari Gunnarssyni, fyrirliða liðsins, var meinað að taka þátt í verkefninu þar sem hann er sakaður um nauðgun ásamt Eggerti Gunnþóri Jónssyni en atvikið á að hafa átt sér stað í Kaupmannahöfn árið 2010.

„Jóhann Berg dró sig úr hópnum vegna meiðsla, að því er fram kom í viðtali við hann,“ sagði Ólöf Tara Harðardóttir í samtali við The Athletic.

„Hann tók það líka fram að hann væri ekki sáttur með vinnubrögð KSÍ. Mín upplifun var sú að Jóhann Berg hefði dregið sig úr hópnum því hann gat ekki spilað með vinum sínum,“ sagði Tanja Ísfjörð Magnúsdóttir.

„Hann setti mikla pressu á fórnarlömb landsliðsmannanna með þessu útspili. Hann hefði getað stigið upp og staðið með þolendum en í staðinn stóð hann með gerendum og almennri þöggun,“ bætti Tanja við.

mbl.is