Völlurinn í Manchester allt of lítill

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér líst bara vel á dráttinn. Ég held að þetta sé fínn riðill og að við séum í ágætis málum,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu eftir að liðið dróst með Frakklandi, Ítalíu og Belgíu í D-riðil á EM á Englandi næsta sumar.

Þorsteinn var viðstaddur dráttinn í Manchester á Englandi og var til viðtals á Teams-fjarfundi með fréttamönnum að honum loknum.

Fyrsti leikur liðsins verður gegn Belgíu á keppnisvelli kvennaliðs Manchester City og síðari tveir leikirnir gegn Frakklandi og Ítalíu fara fram fram á New York-vellinum í Rotherham.

Á fjarfundinum var Þorsteinn spurður hvernig það legðist í hann að fara til Rotherham.

„Ég veit það ekki, jú jú það er örugglega ágætt að kíkja þangað. Ég hef svo sem ekkert verið að spá í því hvar nákvæmlega við erum að fara að spila þessa þrjá leiki. En ég er bara spenntur fyrir keppninni og spenntur fyrir þessum leikjum,“ sagði Þorsteinn.

Um fyrsta leikinn í Manchester sagði hann: „Sem City-aðdáanda finnst mér það allt í lagi en persónulega finnst mér það allt of lítill völlur. Maður hefur áhyggjur af því að  í einhverjum tilfellum verði Íslendingar í vandræðum með að fá miða á völlinn.“

Sá völlur tekur við allt að 7.000 áhorfendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert