Byrjunarlið Íslands: Birkir jafnar leikjametið

Birkir Bjarnason jafnar leikjametið í kvöld.
Birkir Bjarnason jafnar leikjametið í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birkir Bjarnason leikur sinn 104. A-landsleik í fótbolta í kvöld er Ísland mætir Rúmeníu í undankeppni HM ytra. Með því jafnar Birkir leikjamet Rúnars Kristinssonar fyrir landsliðið en Rúnar lék 104 landsleiki á árunum 1987-2004.

Birkir lék sinn fyrsta landsleik gegn Andorra 29. maí árið 2010. Hann lék alla leiki Íslands á EM í Frakklandi 2016 og HM í Rússlandi tveimur árum síðar. Hann er fyrirliði liðsins í leiknum í kvöld. 

Ari Freyr Skúlason kemur næstur á eftir Birki í byrjunarliðinu en hann leikur sinn 83. landsleik í kvöld.

Aðrir í byrjunarliðinu eru með samtals 88 landsleiki, þar með talinn leikinn í kvöld. Albert Guðmundsson kemur á eftir Ara en hann leikur sinn 28. landsleik í kvöld.

Arnar Þór Viðarsson gerir þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá 4:0 sigrinum á Liechtenstein. Ari Freyr Skúlason og Ísak Bergmann Jóhannesson koma inn eftir að hafa tekið út leikbann og Sveinn Aron Guðjohnsen er fremsti maður. Guðmundur Þórarinsson og Þórir Jóhann Helgason fara á bekkinn og Viðar Örn Kjartansson dró sig út úr hópnum í gær vegna meiðsla.

Byrjunarlið Íslands:

Markvörður: Elías Rafn Ólafsson.

Vörn: Ari Freyr Skúlason, Daníel Leó Grétarsson, Brynjar Ingi Bjarnason, Alfons Sampsted.

Miðja: Stefán Teitur Þórðarson, Birkir Bjarnason, Ísak Bergmann Jóhannesson.

Sókn: Jón Dagur Þorsteinsson, Sveinn Aron Guðjohnsen, Albert Guðmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert