Markalaust jafntefli gegn Rúmenum

Stefán Teitur Þórðarson sendir boltann í kvöld.
Stefán Teitur Þórðarson sendir boltann í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Ísland mætti Rúmeníu á útivelli í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í kvöld. Leikurinn fór fram á Steaua-vellinum í Búkarest. Leiknum lauk með 0:0 jafntefli í heldur tíðindalitlum leik.

Arnar Þór Viðarsson á hliðarlínunni í kvöld.
Arnar Þór Viðarsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Leikurinn fór rólega af stað en Brynjar Ingi Bjarnason fékk fyrsta færi leiksins á 11. mínútu. Hann fékk þá boltann aleinn á auðum sjó við markteigslínu eftir hornspyrnu Ara Freys Skúlasonar en skóflaði boltanum yfir markið. Ari þurfti svo að fara af velli fjórum mínútum síðar vegna meiðsla en Guðmundur Þórarinsson kom inn í hans stað. Rúmenar fengu sitt besta færi í fyrri hálfleik eftir hornspyrnu á 23. mínútu. Florin Tanase átti þá skalla í átt að marki en Alin Tosca, sem stóð nánast á marklínunni skallaði boltann yfir markið.

Sveinn Aron Guðjohnsen í baráttunni í kvöld.
Sveinn Aron Guðjohnsen í baráttunni í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Albert Guðmundsson fékk svo frábært færi þegar tæpar fimm mínútur voru til hálfleiks. Stefán Teitur Þórðarson tók þá langt innkast sem endaði í fótum Alberts, hann átti frábæra fyrstu snertingu en skotið fór því miður rétt framhjá stönginni. Tveimur mínútum síðar skapaðist svo aftur stórhætta við mark Rúmena eftir langt innkast Stefáns. Í þetta skiptið endaði boltinn hjá Birki Bjarnasyni í miðjum teignum, hann reyndi skot sem var á leiðinni í netið þegar Razvan Marin henti sér fyrir það. Fleira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleik og staðan því 0:0 þegar Sergei Karasev, dómari leiksins, flautaði til hálfleiks.

Byrjunarlið Íslands í kvöld.
Byrjunarlið Íslands í kvöld. AFP

Seinni hálfleikur fór rólega af stað eins og sá fyrri. Hvorugt lið fékk nein alvöru færi þrátt fyrir nokkra fína sénsa. Sveinn Aron Guðjohnsen fékk ágætis skallafæri eftir hornspyrnu á 57. mínútu en náði ekki krafti í skallann og Rúmenar komu boltanum frá. Sveinn Aron fór svo af velli á 74. mínútu fyrir bróður sinn Andra Lucas en á sama tíma kom Þórir Jóhann Helgason inn fyrir Stefán Teit Þórðarson. Það voru svo Rúmenar sem komust næst því að gera sigumark leiksins þegar Ianis Hagi fór illa með Ísak Bergmann Jóhannesson og átti hörkuskot í innanverða stöngina. Boltinn dansaði meðfram marklínunni áður en hann skrúfaðist aftur fyrir endamörk. Á 90. Mínútu komu svo þeir Mikael Egill Ellertsson og Aron Elís Þrándarson, sem hefur spilað frábærlega í vetur fyrir OB í Danmörku, inn fyrir Ísak Bergmann Jóhannesson og Albert Guðmundsson. Fleira markvert gerðist ekki og lokatölur því 0:0.

Sveinn Aron Guðjohnsen og Vlad Chiriches í baráttunni í kvöld.
Sveinn Aron Guðjohnsen og Vlad Chiriches í baráttunni í kvöld. AFP

Varnarleikur Íslands í leiknum var nokkuð góður frá upphafi til enda. Elías Rafn Ólafsson, markvörður liðsins, átti skínandi flottan leik og var mjög öruggur í öllum sínum aðgerðum. Miðjumennirnir Birkir Bjarnason, Ísak Bergmann Jóhannesson og Stefán Teitur Þórðarson börðust eins og ljón og Albert Guðmundsson var sérstaklega líflegur fram á við. Margt jákvætt hjá kornungu liði Íslands.

Albert Guðmundsson í baráttunni við Alin Tosca varnarmann Rúmeníu.
Albert Guðmundsson í baráttunni við Alin Tosca varnarmann Rúmeníu. AFP

Þetta stig þýðir það að Ísland situr í 5. sæti riðilsins með níu stig. Lokaleikur liðsins fer fram á sunnudag þegar liðið leikur við Norður Makedóníu á útivelli. Rúmenar eru í 3. sæti riðilsins með 14 stig og eru enn í góðum séns á að komast í umspilið fyrir HM 2022

Ari Freyr Skúlason fer meiddur af velli.
Ari Freyr Skúlason fer meiddur af velli. AFP
Rúmenía 0:0 Ísland opna loka
90. mín. Albert Guðmundsson (Ísland) fer af velli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert