„Stórt fyrir mig og mína fjölskyldu“

Birkir Bjarnason jafnaði leikjamet Rúnars Kristinssonar í kvöld.
Birkir Bjarnason jafnaði leikjamet Rúnars Kristinssonar í kvöld. AFP

Birkir Bjarnason var fyrirliði Íslands í dag í markalausu jafntefli gegn Rúmenum í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í kvöld.

Birkir jafnaði þar með leikjamet Rúnars Kristinssonar fyrir íslenska landsliðið en báðir hafa þeir nú leikið 104 landsleiki. Birkir getur bætt metið á sunnudag þegar Ísland mætir Norður Makedóníu. Birkir var til viðtals hjá Gunnari Birgissyni hjá RÚV eftir leik.

„Þetta er stórt fyrir mig og mína fjölskyldu. Ég er stoltur af þessu og vonandi get ég haldið áfram og fengið ennþá fleiri leiki“

Bjóst Birkir við þessu þegar hann steig sín fyrstu skref fyrir landsliðið?

„Nei ég get nú ekki sagt það. Ég hef nú eiginlega aldrei pælt mikið í þessu fyrr en maður var rétt að skríða yfir 100 leiki. Þetta hefur aldrei verið neitt markmið eða neitt svoleiðis en ótrúlegur plús að ná þessu.“

„Nei ég get ekki sagt að við séum sáttir með úrslitin. Við sköpum okkur mikið af mjög góðum færum og erum oft mjög nálægt því að skapa okkur færi. Svona allt í allt er þetta erfiður leikur á erfiðum velli en ég held að við séum allir svekktir með að ná ekki í þrjú stig.“

„Við erum að reyna að bæta okkar leik. Mér fannst við spila ágætis leik í dag og höldum áfram að byggja ofan á það sem við erum búnir að gera í þónokkurn tíma. Ég held að þetta líti bara vel út upp á framhaldið.“

„Það eru margir ótrúlega ungir og efnilegir strákar sem vilja læra. Þeir eru ótrúlega viljugir til að halda áfram og ná árangri fyrir landsliðið. Það er bara gaman að vera í þessu og reyna að hjálpa þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert