Eiður Smári er stærsta nafn í íslenskri knattspyrnusögu

Eiður Smári Guðjohnsen hefur látið af störfum sem aðstoðarþjálfari íslenska …
Eiður Smári Guðjohnsen hefur látið af störfum sem aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eiður Smári Guðjohnsen er stærsta nafn í íslenskri knattspyrnusögu,“ sagði Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ, í samtali við mbl.is í dag.

Eiður Smári lét af störfum sem aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í gær eftir að stjórn KSÍ ákvað að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi hans.

Þjálfarinn fyrrverandi var ráðinn aðstoðarþjálfari íslenska liðsins í desember á síðasta ári en hafði fram að þeim tíma stýrt U21-árs landsliðinu ásamt Arnari Þór Viðarssyni frá því í janúar 2019.

Eiður Smári lék 88 A-landsleiki fyrir Íslands á árunum 1996 til ársins 2016 þar sem hann skoraði 26 mörk en hann er markahæsti leikmaður í sögu liðsins ásamt Kolbeini Sigþórssyni.

„Eiður Smári er hetja margra knattspyrnuunnenda og verður það auðvitað áfram,“ sagði Ómar.

„Vonandi nær hann flugi í því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni, hvort sem það snýr að knattspyrnu eða einhverju öðru.

Þetta var erfið og þungbær ákvörðun að taka fyrir stjórnina og Eið auðvitað en vonandi leiðir sagan það í ljós að þetta hafi verið rétt ákvörðun,“ bætti Ómar við í samtali við mbl.is.

Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen á góðri stundu.
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen á góðri stundu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert