„Gæti orðið öðruvísi leikur“

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Þorsteinn Halldórsson eru komin til Japan.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Þorsteinn Halldórsson eru komin til Japan. mbl.is/Unnur Karen

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fyrirliði og Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari ræddu um vináttulandsleikinn í knattspyrnu gegn Japan með hjálp fjarfundabúnaðar í morgun. 

Þorsteinn sagði liðið fá stuttan undirbúning fyrir leikinn. Íslenski hópurinn kom bara í gær á leikstað í Hollandi og hefur því ekki mikinn tíma. Þau reikna með erfiðum leik vegna þess að japanska liðið er gott og íslenska liðið þurfi að vera upp á sitt besta til að vinna. 

„Þetta gæti orðið öðruvísi leikur en Íslendingar eru vanir gegn evrópskum liðum í undankeppnum. En ég býst við að hugsa mest um leik íslenska liðsins. Við getum notað leikinn til að fara í grunnatriðin. Japan hefur pressað hátt og þær verið grimmar í því. Við þurfum að reyna að spila okkur í gegnum það og þora að vera með boltann. Reyndar urðu þjálfaraskipti hjá Japan og því ekki alveg fyrirsjáanlegt hvernig liðið spilar,“ sagði Þorsteinn og sagði stöðuna á leikmannahópnum vera afar góða. 

„Þær eru allar heilar og leikfærar. Engin meiðsli eru í hópnum og liggur við engin smávægileg meiðsli heldur. Hópurinn er í fínu standi og lítur vel út.“

Gunnhildur Yrsa lagði áherslu á að japanska liðið væri öflugt og góður prófsteinn fyrir íslenska liðið að mæta því. Leikmenn japanska liðsins væru flinkir og því góður undirbúningur fyrir lokakeppni EM að eiga við þær. 

„Við höfum undirbúið okkur í stuttan tíma í þetta skiptið en erum ágætlega undirbúnar því liðið hefur fengið tíma til að vinna saman á síðustu mánuðum. Það er jákvætt að mæta Japan því liðið er gott og leggur upp úr því að halda boltanum. Við viljum spila gegn bestu liðunum. Við viljum bæði hugsa um vörnina og sóknina í leiknum. Við þurfum að vera þéttar í vörninni gegn liði eins og Japan en þurfum einnig að hafa kjark til að halda boltanum þegar við náum honum. Japan er með flott lið og eitt það besta í heimi. Þetta er góður undirbúningur fyrir EM næsta sumar. Að fá svona leiki er gott því við getum einbeitt okkur að því sem við viljum vinna í. Japan er með góða einstaklinga og leið þeirra er í takti við það hvernig kvennaknattspyrnan er að þróast. Það verður gott fyrir okkur að venjast því að spila á móti liði sem á auðvelt með að halda boltanum. Það eru ekki mörg verkefni fram að EM og því er mikilvægt að nýta þetta vel,“ sagði Gunnhildur Yrsa en hún var einnig spurð af japönskum blaðamanni hver væru einkenni íslenska liðsins. 

„Hugarfarið og vinnusemi. Við erum lið og byggjum ekki á einstaklingum. Við vinnum vel saman sem lið og sem hópur erum við með sameiginleg markmið. Þjálfarinn er góður og kann að undirbúa lið fyrir leiki. Auk þess er blandan í hópnum góð af reyndum leikmönnum en einnig yngri leikmönnum sem vilja sanna sig,“ sagði Gunnhildur Yrsa. 

Leikur Japan og Ísland fer fram í Almere í Hollandi annað kvöld, fimmtudagskvöld, og hefst klukkan 18.40 að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert