Besta frammistaðan undir minni stjórn

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, var að vonum afar ánægður með frækinn 2:0 sigur liðsins gegn Japan í vináttulandsleik í Almere í Hollandi í kvöld. Hann telur frammistöðuna þá bestu undir hans stjórn hingað til.

„Já ég myndi halda það. Þetta var flottur leikur, við vorum bara heilt yfir mjög massív í dag. Japanska liðið náði ekki að opna okkur að neinu ráði. Ég held að Cecilía [Rán Rúnarsdóttir markvörður] hafi aldrei þurft að skutla sér til þess að verja eitthvað. Ég var mjög ánægður með liðið í dag,“ sagði Þorsteinn á Teams-fjarfundi með fréttamönnum eftir leik.

„Ég var ánægðastur með hvernig við mættum þeim, þorðum að ýta upp á móti þeim, náðum að halda þeim frá markinu okkar og vorum sterk í návígjunum. Við unnum þær svolítið á því. Við vorum mjög aggressív.

Síðan var ég sáttur við að við þorðum að vera með boltann, þorðum að halda honum og reyna að finna opnanir og tókst það allavega tvisvar. Svo fengum við einhver önnur færi líka. Heilt yfir var ég bara mjög sáttur við þennan leik, bæði sóknar- og varnarlega,“ bætti hann við.

Spurður hvort Þorsteinn hafi verið ósáttur við eitthvað í leik Íslands var svarið stutt og einfalt: „Nei.“

Hann sagði þá að ekkert hafi komið Íslandi á óvart í leik Japans. „Þetta er það sem við stefndum að. Miðað við þennan stutta undirbúning sem við fengum þá snerist hann um að vera massív í leiknum, vera lið sem væri erfitt að spila á móti og sem væri erfitt að komast í gegnum varnarlega.

Svo vorum við með ákveðnar leiðir í sóknarleiknum sem gengu raunverulega upp, til dæmis í mörkunum og aðdraganda þeirra. Það voru ákveðnir hlutir sem við vorum búin að skoða hjá japanska liðinu og þeir gengu alveg eftir. Maður er sáttur við að ná í okkar fyrsta sigur gegn Japan, sem er gríðarlega sterkt, og ég er bara stoltur af liðinu.“

mbl.is