„Sveindís var eitthvað að væla þarna“

Sveindís Jane Jónsdóttir í leik gegn Hollandi í haust.
Sveindís Jane Jónsdóttir í leik gegn Hollandi í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari og Sveindís Jane Jónsdóttir sátu fyrir svörum á Teams-fjarfundi með fréttamönnum eftir sterkan 2:0 sigur íslenska kvennalandsliðsins gegn Japan í vináttulandsleik í Almere í Hollandi í kvöld.

Á fundinum var Þorsteinn spurður að því hver staðan væri á leikmönnum hvað meiðsli varðar eftir leikinn. Hann sló þá aðeins á létta strengi til að byrja með.

„Sveindís var nú eitthvað að væla þarna en það er eitthvað smá að höndinni á Elísu. Elísa meiddist eitthvað á höndinni en ég veit ekki meira, læknirinn á eftir að skoða hana. Að öðru leyti eru allar bara góðar,“ sagði Þorsteinn.

Þessi ummæli hans voru síðar á fundinum borin undir Sveindísi Jane. „Það er ekkert að mér. Jú, jú ég var kannski smá að væla, var aðeins að fá krampa undir lokin en þetta er frekar ljótt af honum! Ég er bara góð, þetta er ekkert,“ sagði hún og hló við.

mbl.is