Eitt stig sem dó

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þær eru allar heilar og við höfum því úr öllum hópnum að velja fyrir morgundaginn,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á fjarfundi með blaðamönnum á Kýpur í dag.

Ísland mætir Kýpur í C-riðli undankeppni HM 2023 í Lárnaka á Kýpur á morgun en fyrri leik liðanna á Laugardalsvelli lauk með 5:0-sigri íslenska liðsins í lok október.

Ísland vann sterkan 2:0-sigur gegn Japan í vináttulandsleik í Almere í Hollandi á fimmtudaginn en leikurinn var hluti af undirbúningi íslenska liðsins fyrir leikinn gegn Kýpur.

„Það er alltaf jákvætt þegar liðið spilar vel og við sjáum framfarir á liðinu,“ sagði Þorsteinn.

„Frammistaðan gegn Japan mun hjálpa okkur í þessu verkefni gegn Kýpur sem er mikilvægasti leikurinn í þessu glugga því hann skilur eftir sig stig og áþreifanlegan árangur. Við munum stilla upp sterku liði enda skiptir í raun litlu máli hver spilar, við verðum alltaf með sterkt lið inn á. 

Það verður auðvelt að mótivera leikmennina fyrir leikinn, þrátt fyrir sigurinn gegn þeim síðast. Það átta sig allir á mikilvægi leiksins og hvað við þurfum að gera til þess að vinna þær. Ég á von á sambærilegum lauk og á Laugardalsvelli þar sem við munum þurfa stýra leiknum vel,“ sagði Þorsteinn.

Tékkland og Holland gerðu 2:2-jafntefli í riðli Íslands um nýliðna helgi og eru úrslitin afar góð fyrir íslenska liðið sem hefur sett stefnuna á HM 2023 sem fram fer í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

„Úrslitin breyta ekki miklu fyrir okkur enda viljum við vera áfram í bílstjórasætinu þegar kemur að eigin örlögum. Við erum í þeirri stöðu núna að ef okkur tekst vel til þá munum við enda í góðri stöðu í riðlinum.

Á sama tíma er alltaf gott þegar okkar helstu mótherjar tapa stigum og þarna var klárlega eitt stig sem dó í leik Tékklands og Hollands,“ bætti landsliðsþjálfarinn við á fjarfundi með blaðamönnum.

Sveindís Jane Jónsdóttir í leiknum gegn Kýpur á Laugardalsvelli í …
Sveindís Jane Jónsdóttir í leiknum gegn Kýpur á Laugardalsvelli í október. mbl.is/Unnur Karen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert