Sannfærandi íslenskur sigur á Kýpur

Íslensku landsliðskonurnar fagna einu markanna í kvöld.
Íslensku landsliðskonurnar fagna einu markanna í kvöld. Ljósmynd/Knattspyrnusamband Kýpur

Ísland vann 4:0-stórsigur á Kýpur á útivelli í undankeppni HM kvenna í fótbolta í kvöld. Ísland er nú í öðru sæti C-riðils með níu stig eftir fjóra leiki, tveimur stigum á eftir Hollandi sem hefur leikið einum leik meira. Kýpur er á botninum með eitt stig.

Íslenska liðið var með mikla yfirburði og var staðan í hálfleik 3:0. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði fyrsta markið strax á 7. mínútu með glæsilegri aukaspyrnu vinstra megin við teiginn.

Níu mínútum síðar bætti Berglind Björg Þorvaldsdóttir við öðru markinu úr víti sem hún náði í sjálf er hún skaut boltanum í höndina á varnarmanni innan teigs. Berglind var afar örugg á punktinum og skoraði með föstu skoti í bláhornið.

Rúmum 20 mínútum síðar var staðan orðin 3:0 er Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði í þriðja landsleiknum í röð. Hún negldi þá boltanum í netið úr þröngu færi, framhjá Maria Matthaiou í marki Kýpur.

Þrátt fyrir að yfirburðirnir hafi verið miklir urðu mörkin í fyrri hálfleik ekki fleiri. Kýpverska liðið skapaði sér lítið og hafði Sandra Sigurðardóttir ekki mikið að gera í markinu.

Íslenska liðið var áfram sterkara í seinni hálfleik og var töluvert meira með boltann. Það skilaði sér loksins í fjórða markinu á 62. mínútu þegar Karólína negldi boltanum í slánna úr aukaspyrnu og Guðrún Arnardóttir var fyrst á vettvang til að skalla boltann í netið og skora sitt fyrsta mark fyrir landsliðið.

Þrátt fyrir að íslenska liðið hafi verið með boltann nánast allan seinni hálfleikinn urðu mörkin ekki fleiri. Ída Marín Hermannsdóttir lék sinn fyrsta landsleik er hún kom inn á sem varamaður á 65. mínútu. Natasha Anasi kom einnig inn á og lék sinn fyrsta mótsleik.

Kýpur 0:4 Ísland opna loka
90. mín. Svava Rós Guðmundsdóttir (Ísland) á skot framhjá Nálægt! Stórhættulegt skot rétt utan teigs en boltinn hárfínt framhjá nærstönginni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert