Þorsteinn gerir út á breiddina í hópnum

Ísland fagnar einu af fjórum mörkum sínum í gær.
Ísland fagnar einu af fjórum mörkum sínum í gær. Ljósmynd/Knattspyrnusamband Kýpur

Öruggur sigur, fjögur mörk og þrjú stig var niðurstaðan úr síðasta leik íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu á árinu 2021 þegar það vann Kýpur 4:0 í Larnaka í undankeppni heimsmeistaramótsins í gærkvöld.

Undankeppnin er þar með hálfnuð hjá íslenska liðinu sem á eftir báða leikina gegn Hvít-Rússum og síðan útileikina gegn stóru keppinautunum, Tékklandi og Hollandi. Sem stendur hefur Ísland tapað fæstum stigum í riðlinum, er tveimur stigum á eftir Hollandi en á leik til góða.

Leikurinn fer sem slíkur ekki í sögubækurnar. Yfirburðir Íslands voru miklir eins og vænta mátti og úrslitin voru í raun ráðin eftir að Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir komu liðinu í 2:0 á fyrstu 15 mínútum leiksins.

En markaflóðið sem búast hefði mátt við í kjölfarið kom ekki. Á þeim 75 mínútum sem eftir voru gekk íslenska liðinu illa að brjóta niður þéttan varnarleik kýpversku kvennanna sem vörðust af miklum krafti við eigin vítateig og gáfu fá opin færi á sér. Maria Matthiaou var líka örugg í marki Kýpur, varði vel og greip inn í leikinn. Hún hefði þó líklega átt að verja aukaspyrnu Karólínu í fyrsta markinu.

Bestu tækifærin til að skora komu úr föstum leikatriðum, enda skoraði íslenska liðið tvö marka sinna úr og eftir aukaspyrnur og eitt úr vítaspyrnu.

Aðeins Sveindís Jane Jónsdóttir náði að brjóta upp leikinn og skora úr opnum leik, með föstu skoti hægra megin úr vítateignum, sem er nánast orðið vörumerki hennar með íslenska landsliðinu.

Guðrún Arnardóttir innsiglaði svo sigurinn með hörkuskalla eftir að markvörður Kýpur varði aukaspyrnu Karólínu í þverslána og út. Fyrsta landsliðsmark Guðrúnar, sem líka kom í veg fyrir að Kýpur skoraði úr sínu eina umtalsverða færi í leiknum með því að elta uppi Krystynu Fredu, sem var sloppin ein innfyrir vörn Íslands.

Úr þessu varð líklega slakasti leikur íslenska liðsins í keppninni til þessa en þetta var þá líka rétti staðurinn og stundin til þess að ná sér ekki almennilega á strik.

Hefur notað 24 leikmenn

Þorsteinn Halldórsson hefur verið ófeiminn við að gera breytingar á liðinu. Hann sagði eftir sigurinn gegn Japan á föstudag að það hefði verið besti leikurinn undir sinni stjórn og samt gerði hann sex breytingar á byrjunarliðinu fyrir leikinn á Kýpur. 

Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert