Aron og Eggert búnir í skýrslutöku

Aron Einar Gunnarsson og Eggert Gunnþór í leik með íslenska …
Aron Einar Gunnarsson og Eggert Gunnþór í leik með íslenska karlalandsliðinu árið 2015. AFP

Knattspyrnumennirnir Aron Einar Gunnarsson og Eggert Gunnþór Jónsson fóru báðir í skýrslutöku hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fyrr í vikunni vegna meints kynferðisbrots sem á að hafa átt sér í stað í Kaupmannahöfn árið 2010. Það er RÚV sem greinir frá þessu.

Aron Einar, sem hefur verið fyrirliði íslenska karlalandsliðsins undanfarinn áratug, hefur ekki verið valinn í íslenska landsliðshópinn síðan í haust eftir að málið var tilkynnt til lögreglu og samskiptastjóra íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Eggert Gunnþór er samningsbundinn FH í Hafnarfirði og lék sinn síðasta landsleik árið 2019 þegar Ísland mætti Svíþjóð í vináttulandsleik í Doha í Katar.

Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar, sagði í samtali við RÚV að rannsókn á ofbeldisbroti sem kom upp í Kaupmannahöfn fyrir ellefu árum síðan miði vel en vildi að öðru leyti ekki tjá sig frekar um málið.

Bæði Aron Einar og Eggert Gunnþór hafa haldið fram sakleysi sínu í málinu og sent frá sér sitthvora yfirlýsinguna vegna rannsóknarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert