Gæti verið spennandi kostur að fara í slíkt starf

Ólafur Helgi Kristjánsson stýrði síðast Esbjerg í dönsku B-deildinni en …
Ólafur Helgi Kristjánsson stýrði síðast Esbjerg í dönsku B-deildinni en lét af störfum eftir síðasta tímabil. Ljósmynd/Esbjerg

Knattspyrnuþjálfarinn Ólafur Helgi Kristjánsson hefur verið orðaður  við starf yfirmanns knattspyrnumála hjá Knattspyrnusambandi Íslands undanfarið. 

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, er yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ í dag og hefur gegnt starfinu síðan í apríl 2019 en hann var ráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í desember á síðasta ári.

Þegar Arnar tók við karlaliðinu greindi hann frá því að hann myndi láta af störfum sem yfirmaður knattspyrnumála þegar búið væri að finna eftirmann hans.

„Það er maður í starfinu þannig mér er frekar illa við að ræða um þann möguleika,“ sagði Ólafur í samtali við fótbolta.net þegar hann var spurður að því hvort hann gæti tekið við sem yfirmaður knattspyrnumála.

„Það er einn af þeim hlutum sem ég hef velt fyrir mér hvort ég ætti að nýta mína reynslu síðustu 20 árin rúm úr þjálfun á annan hátt en að standa út á æfingavelli. Hvort það er í slíku starfi eða hvort það sé á Íslandi eða erlendis, það er bara ómögulegt að segja."

„Ég er búinn að afla mér reynslu tel ég síðustu 20 árin. Ég hef hugmyndir og hef alltaf haft hugmyndir. Það gæti verið spennandi kostur fyrir mig að fara í eitthvað slíkt starf, ekki endilega það tilgreinda starf sem Arnar situr í og okkur ber að bera virðingu fyrir því."“ bætti Ólafur við.

mbl.is