Gamla ljósmyndin: Fyrstur í 100 leiki

Morgunblaðið/Brynjar Gauti

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Rúnar Kristinsson var í sjö ár eini íslenski knattspyrnumaðurinn sem leikið hafði 100 A-landsleiki. Síðasta áratuginn hafa all margar konur náð því og nú hafa þeir Birkir Bjarnason og Birkir Már Sævarsson einnig bæst við 100-leikja klúbbinn svokallaða í karlaflokki.

Rúnar setti leikjamet á sínum tíma en hann lék sinn síðasta landsleik gegn Ítalíu sumarið 2004 og lék alls 104 A-landsleiki. Birkir Bjarnason sló met Rúnars hjá karlalandsliðinu á dögunum þegar hann lék landsleik númer 105 gegn Norður-Makedóníu. 

Á meðfylgjandi mynd skorar Rúnar gegn Armeníu á Laugardalsvelli í júní 1999 í undankeppni EM 2000. Ísland sigraði 2:0 og lék Rúnar þá A-landsleik númer 75. Ísland var þá taplaust í ellefu leikjum í röð undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar.

Þess má geta að Ísland var einnig með Armeníu í riðli í undankeppni HM sem er nýlokið og lék Birkir Bjarna leik númer 102 gegn Armeníu í október. 

Myndina tók Brynjar Gauti sem lengi myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is. Birtist hún í umfjöllun Morgunblaðsins um leikinn hinn 8. júní 1999. Í baksýn má sjá Þórð Guðjónsson númer 10. 

Rúnar var í landsliðinu í langan tíma eða frá 1987 til 2004 og skoraði 3 mörk í leikjunum 104. Þjóðverjinn Sigfried Held gaf Rúnari tækifæri aðeins 18 ára gömlum. Rúnari var þá skipt inn á í síðasta leik Íslands í undankeppni EM 1988 sem var 2:0 tapleikur gegn Sovétríkjunum í Simferopol. 

Rúnar lék 140 leiki með KR á Íslandsmótinu en hann lagði skóna á hilluna árið 2007. Hann lék sem atvinnumaður í fjórtán ár með Örgryte í Svíþjóð, Lilleström í Noregi og Lokeren í Belgíu. Rúnar lék alls 462 deildaleiki á ferlinum og aðeins átta íslenskir knattspyrnumenn hafa spilað fleiri leiki.

Árið 1999 hafnaði Rúnar í 5. sæti í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert