Fjölmiðlar búnir að mála þetta ansi skrautlega upp

Ólafur Ingi Skúlason snéri heim úr atvinnumennsku árið 2018 og …
Ólafur Ingi Skúlason snéri heim úr atvinnumennsku árið 2018 og lék með Fylki í þrjú tímabil áður en hann lagði skóna á hilluna árið 2020. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru ýmsir fjölmiðlar búnir að mála upp ansi skrautlegar fyrirsagnir varðandi þetta,“ sagði knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Ólafur Ingi Skúlason í samtali við fótbolta.net í dag og vísaði þar til viðtals sem Ásgeir Börkur Ásgeirsson fór í hjá Mána Péturssyni í hlaðvarpsþættinum Einn einn fótboltaþátturinn.

Í þættinum ræddi Ásgeir Börkur viðskilnað sinn við uppeldisfélag sitt Fylki en hann rifti óvænt samningi sínum við Árbæinga í október 2018 eftir að hafa verið fyrirliði liðsins lengi vel.

Miðjumaðurinn, sem er 34 ára gamall, gekk til liðs við Árbæinga á nýjan leik í október eftir þrjú ár í herbúðum HK en honum fannst hann ekki fá þá virðingu sem hann átti skilið í Árbænum frá bæði Helga Sigurðssyni sem þá þjálfaði liðið og Ólafi Inga sem tók við fyrirliðabandinu af Ásgeiri.

„Ég rædd við Börk og það er allt í góðu okkar á milli. Þetta er kannski upplifun sem honum fannst vera þótt það séu engin rök fyrir því á nokkurn átt. Maður getur ekki verið að gera lítið úr tilfinningum fólks þannig ef það var þannig sem honum leið þá ber maður virðingu fyrir því,“ sagði Ólafur í samtali við fótbolta.net.

„Mér fannst skrítið að hann væri að tala um þetta á annað borð. Ég er búinn að heyra í mönnum sem voru við stjórnvölinn á þessum tíma og það eru allir jafn hissa. Ég veit að þetta kom fleirum á óvart heldur en mér. Auðvitað er tímapunkturinn skrítinn, ég hlustaði á viðtalið til að ganga úr skugga um hvort það hefði verið að taka allt úr samhengi. Þetta var aðeins skreytt.

Ásgeir Börkur Ásgeirsson er genginn til liðs við Árbæinga á …
Ásgeir Börkur Ásgeirsson er genginn til liðs við Árbæinga á nýjan leik eftir þrjú ár í herbúðum HK. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eins og hann sagði þá hefur hann aldrei verið spurður að þessu og gerir þennan tíma upp svona. Það kom mér á óvart og kom held ég öllum í opna skjöldu. Það eru þrjú ár síðan hann fór og hann hefur átt mjög flott ár hjá HK. Maður hefði haldið að þetta væri eitthvað sem væri liðin tíð og eitthvað sem menn væru búnir að gera upp. En svo virðist ekki vera,“ sagði Ólafur Ingi meðal annars.

Helgi Sigurðsson tjáði sig einnig um málið við fótbolta.net en hann stýrði Fylki frá 2017 til ársins 2019.

„Það er leiðinlegt að hann upplifi þetta þannig. Það var ekki mín upplifun, alls ekki og langt í frá. Ég óska honum alls hins besta og ég vildi ekki að hann færi frá Fylki á sínum tíma. Ég bað aldrei um að hann ætti að fara, það var hann sem óskaði eftir því að fá að fara, allavega eins og mér var tjáð af Fylki. Það kom aldrei neitt frá mér og hann spilaði alla leiki undir minni stjórn. Ég gaf aftur á móti leyfi á það að hann fengi að fara eftir að hann bað um það,“ sagði Helgi.

„Hann var lykilmaður undir minni stjórn og spilaði alla leiki. Maður getur ekki rifist við hans tilfinningar og ef hann upplifir þetta svona þá er það mjög leiðinlegt,“ bætti Helgi við í samtali við fótbolta.net.

Helgi Sigurðsson stýrði Fylki frá 2017 til ársins 2019.
Helgi Sigurðsson stýrði Fylki frá 2017 til ársins 2019. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is