Veðrið mætti vera verra

Hafrún Rakel Halldórsdóttir.
Hafrún Rakel Halldórsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Létt var yfir fulltrúum Breiðabliks á blaðamannafundi í dag vegna leiksins gegn Real Madríd í Meistaradeild kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli. 

Þar fer leikur liðanna fram annað kvöld í B-riðli keppninnar og verður þetta síðasti heimaleikur Breiðabliks í keppninni. 

Hafrún Rakel Halldórsdóttir, leikmaður liðsins, sagði í léttum dúr að veðrið mætti alveg vera íslenskara þegar stórlið frá Spáni er í heimsókn í desember en blankalogn var á Kópavogsvelli í dag og engin ofankoma. Ekki er útlit fyrir vetrarveður á morgun en Hafrún sagði að ágætt væri að fá smá slyddu. 

Ásmundur Arnarsson þjálfari liðsins tók undir með Hafrúnu hvað það varðar að íslensk vetrarveðrátta hefði getað hjálpað til varðandi úrslit í heimaleikjum. Á alvarlegri nótum sagði hann hins vegar að veðurfarið og aðstæður á vellinum væri vísbending um að hægt væri að lengja knattspyrnutímabilið hérlendis.

Hafrún sagði á fundinum að liðið hefði reynt að undirbúa sig eins vel og kostur væri fyrir leikinn á morgun. Til dæmis með því að spila æfingaleiki við íslensk félagslið. Liðið væri í ágætu standi þótt komið sé fram í desember þótt augljóslega sé leikæfingin ekki sú sama og meðan á Íslandsmótinu stendur. Hafrún sagði að skemmtilegt væri fyrir Blika að ná að skora í leiknum á morgun því liðið hefur ekki náð því hingað til í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Til að skora gegn stórliðum eins og Real eða París St. Germain þurfi að nýta marktækifærin vel sem bjóðast. Tækifærin séu ekki það mörg gegn slíkum andstæðingum. 

Natasha Anasi og Ásmundur Arnarsson. Anasi er ekki lögleg í …
Natasha Anasi og Ásmundur Arnarsson. Anasi er ekki lögleg í Meistaradeildinni. Ljósmynd/Breiðablik

Ásmundur sagði alla leikmenn Breiðabliks vera tilbúna í slaginn og engin forföll séu vegna meiðsla eða veikinda. Hann sagði að helsti lærdómurinn sem draga megi af leikjunum í keppninni sé sá að hraðinn sé meiri en í deildaleikjum á Íslandi. Leikmenn fái því minni tíma til athafna sig á vellinum og það hafi verið viðbrigði. Einnig sé augljóst að lið sem tekur þátt í keppninni utan keppnistímabilsins í heimalandinu sé ekki í sömu stöðu og lið sem séu í fullri leikæfingu. Þá umræðu þurfi knattspyrnuhreyfingin að taka með tilliti til þess hvort lengja eigi keppnistímabilið hjá konunum. Ásmundur tók skýrt fram að margir vinklar væru á slíkri umræðu og margt sem þyrfti að skoða í því samhengi. 

Sagði hann jafnframt að fyrstu vikurnar í starfi hjá Breiðabliki hafi verið ævintýri líkastar í ljósi þess að hann hafi gengið beint inn í þátttöku í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Það sé ekki ákjósanlegt varðandi undirbúning liðsins fyrir þá leiki en ef hann horfti til næsta árs þá sé jákvætt að sjá strax hvar skóinn kreppi í leik liðsins. Ekki sé hægt að sjá það betur en gegn andstæðingum eins og Real Madríd og París. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert